Innlent

„Við viljum kjósa"

Snærós Sindradóttir skrifar
Frá mótmælum við Austurvöll síðastliðinn laugardag
Frá mótmælum við Austurvöll síðastliðinn laugardag VÍSIR/VALLI
Boðað hefur verið til mótmæla á Austurvelli á laugardag vegna áætlunar ríkisstjórnarinnar um að draga til baka aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Sif Traustadóttir verður fundarstjóri á mótmælunum.

„Við erum ósátt við að þessi umsókn verði dregin til baka og við viljum að staðið verði við það sem var lofað, um að það verði þjóðaratkvæðagreiðsla. Þeir sögðu margoft að hún myndi fara fram á fyrri hluta kjörtímabilsins og við viljum bara að það sé staðið við það“ 

Sif Traustadóttir er fundarstjóri mótmælanna á laugardagVÍSIR/Aðsent
Sif segir að engin skipulögð samtök standi fyrir mótmælunum „Við erum bara fólk sem er úr sitthvorri áttinni. Þetta er svona grasrót bara.“

Laugardaginn 1. mars komu 8000 manns saman til að mótmæla stefnu ríkisstjórnarinnar í Evrópumálum. Sif segist vongóð fyrir komandi mótmæli „Við erum að vonast til að það verði svipaður fjöldi og seinast. Það er hugur í fólki. Krafan er bara að fá að kjósa.“

Fram kemur á auglýsingu fyrir mótmælin að þau hefjist klukkan 15.00.

Ræðumenn verða Jón Kalman Stefánsson rithöfundur, Margrét Kristmannsdóttir formaður samtaka verslunar og þjónustu og Ólafur Stefánsson handboltamaður. Tónlistarmennirnir KK og Svavar Knútur munu spila.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×