Enski boltinn

Leikmenn Bolton vilja fá Eið Smára: „Hann er algjör goðsögn“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen spilaði með Bolton síðast um aldamótin.
Eiður Smári Guðjohnsen spilaði með Bolton síðast um aldamótin. vísir/getty
Dorian Dervite, varnarmaður Bolton, og Andy Lonergan, markvörður liðsins, vilja báðir ólmir fá Eið Smára Guðjohnsen, en markahæsti leikmaður íslenska landsliðsins frá upphafi hefur æft með Bolton undanfarið.

Neil Lennon, knattspyrnustjóri Bolton, er spenntur fyrir því að semja við Eið Smára, en vill sjá hann í leik. Eiður mun spila æfingaleik fyrir luktum dyrum í vikunni og gæti tekið þátt í leik varaliðsins gegn Middlesbrough í vikunni.

Þetta kemur fram á vef Bolton News, en þar segir að Eiður sé nær því að ganga í raðir liðsins eftir samtal við Phil Gartside, stjórnarformann Bolton, á föstudaginn. 

Eiður Smári spilaði síðast með Bolton árið 2000 og sló svo í gegn að hann var keyptur til Chelsea. Hann er orðinn 36 ára en Dorian Dervite, franskur varnarmaður Bolton, segir það skipta engu máli.

„Hann er leikmaður sem gæti nýst okkur. Við sjáum hvort hann verði hér áfram eftir nokkrar vikur sem ég vona að gerist. Hann er frábær leikmaður. Ég spilaði með honum hjá Tottenham og hann hefur lítið breyst,“ segir Dervite.

„Hann hefur mikla yfirsýn þegar hann er með boltann og mun bæta okkar lið. Hann nær vel saman við strákana og smellpassar í hópinn. Þetta er leikmaður sem þú getur treyst þegar hann fær boltann. Mér finnst hann jafn góður og hann hefur alltaf verið.“

Andy Lonergan, markvörður Bolton, hefur líka ekkert nema góða hluti að segja um Eið Smára.

„Hann er algjör goðsögn. Það er bara gaman að hafa æft með honum, hvort sem hann semur eða ekki. Við tölum mikið við hann og spyrjum hann endalaust af spurningum um Barcelona,“ segir markvörðurinn.

„Ég gat ekki beðið eftir því að prófa mig gegn honum. Við erum búnir að mætast nokkrum sinnum á æfingum, en hann er ekki búinn að skora mörg mörk á móti mér.“

„Hann yrði frábær fyrir okkar lið og gerir alla betri í kringum sig. Maður vill að aðrir leikmenn liðsins vilji sýna sig fyrir honum. Maður vill ekki vera leikmaðurinn sem Eiður Smári skilur ekki hvað sé að gera hérna,“ segir Andy Lonergan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×