Lífið

Samstíga listakonur í Óraunveruleikjum

Ugla Egilsdóttir skrifar
Urður Hákonardóttir.
Urður Hákonardóttir. fréttablaðið/Valli
Urður Hákonardóttir tónlistarkona býr til tónlist í danssýningunni Óraunveruleikjum. Sýningin er samstarf hennar og dansaranna Þyri Huldar Árnadóttur og Valgerðar Rúnarsdóttur, og verður frumsýnd á fimmtudaginn.

„Þetta er eiginlega í fyrsta sinn sem ég bý til tónlist alveg ein opinberlega,“ segir Urður, en hún er í hljómsveitinni Gus Gus.

„Ég kynntist Þyri Huld þegar Gus Gus gerði sýninguna Á vit með Reykjavík Dance Production. Þá bar ég ekki ein ábyrgð á tónlistinni, eins og núna.

Í gegnum Þyri og hina dansarana kynntist ég Valgerði, en ég hafði kannast við hana í gegnum tíðina. Við vorum allar spenntar fyrir því að gera eitthvað saman.“

Í Óraunveruleikjum lögðu stelpurnar upp með að rannsaka hver væru mörk hins raunverulega heims og óraunveruleikans.

„Þetta er auðvitað mjög vítt efni, og við komumst ekki að neinni niðurstöðu beinlínis. Allt í heiminum heyrir auðvitað undir raunveruleika og óraunveruleika.

Það er ekki allur heimurinn undir í verkinu samt sem áður, þetta er enginn endapunktur í stúdíu á alheiminum, heldur okkar ferðalag í gegnum þessar pælingar.

Á æfingaferlinu var ímyndaraflið okkur hugleikið, og einnig tálsýnir og sjónhverfingar. Þetta þróaðist út í einhvers konar leiki. Það er einkar viðeigandi, því í leikhúsi á maður á að leika sér. Við erum að leika okkur og hvetjum áhorfendur til að leika sér.“

Urður er ánægð með samstarfið við Þyri og Valgerði. „Þær eru æðislegir listamenn. Við höfum verið mjög samstíga í öllu sem við höfum gert.

Ég fór ekki bara heim og bjó til lag. Öll tónlist hefur orðið til á æfingum þar sem dansinn varð til. Við höfum allar verið með puttana í öllu.

Þó að ég hafi umsjón með tónlistinni þá eiga þær líka einhvern heiður að henni, og það er eins með annað í sýningunni.“

Hópurinn frumsýnir Óraunveruleiki í Kassanum í Þjóðleikhúsinu fimmtudaginn 16. janúar. Aðrar sýningar eru 17., 25., og 26. janúar. Aðeins þessar fjórar sýningar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.