Handbolti

Gunnar Steinn: Nú má maður ekki verða of saddur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gunnar Steinn Jónsson og landsliðsþjálfarinn Aron Kristjánsson á blaðamannafundinum í gær.
Gunnar Steinn Jónsson og landsliðsþjálfarinn Aron Kristjánsson á blaðamannafundinum í gær. Mynd/Valli
Gunnar Steinn Jónsson og varnartröllið Bjarki Már Gunnarsson eru á leið á sitt fyrsta stórmót á EM í Danmörku. Það bjuggust allir við að Bjarki Már fengi tækifærið í forföllum Ingimundar Ingimundarsonar og bakvandræðum Vignis Svavarssonar en það sáu mun færri fyrir sér að Gunnar Steinn kæmist í EM-hópinn.

„Ég kom inn í byrjun sem síðasti maður og ég held að ég hafi ekki verið beint inni í plönunum til að byrja með. Ég held að ég hafi nýtt ágætlega þau tækifæri sem ég fékk,“ sagði Gunnar Steinn kátur.

„Þetta er oft styttra en menn halda,“ segir landsliðsþjálfarinn Aron Kristjánsson um Gunnar.

„Hann fór í axlaraðgerð í sumar sem hjálpaði honum mikið varðandi skotkraft. Hann hefur ekki verið að spila vörn í Frakklandi en hefur sýnt það á þessum æfingum að hann getur alveg spilað vörnina líka. Hann hefur komið mjög vel inn í hópinn, virkar andlega sterkur og með góðan taktískan skilning,“ segir Aron.

„Ég gerði það rétta þegar ég hitti Aron fyrir jól og fékk að fara yfir kerfin með honum. Ég vissi það að ef ég ætlaði að eiga einhvern möguleika á að fara með á EM þá þyrfti ég að vera með allt á hreinu. Það var ekki hægt að eyða tíma í að æfa mig í einhverjum atriðum. Ég var því vel undirbúinn. Ég glósaði aðeins um jólin,“ sagði Gunnar Steinn brosandi.

„Þetta er búið að vera draumur minn lengi og ég er kannski ekki alveg búinn að átta mig á þessu. Nú má maður ekki verða of saddur eftir þetta. Ég verð að geta hjálpað liðinu á mótinu því það er aðalatriðið. Ég verð því að koma mér niður á jörðina aftur,“ sagði Gunnar Steinn að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×