Lífið

Vill sjá fólk kveljast

Ugla Egilsdóttir skrifar
Esther Ösp er aðfluttur íbúi á Hólmavík.
Esther Ösp er aðfluttur íbúi á Hólmavík. fréttablaðið/Vilhelm
Esther Ösp Valdimarsdóttir, tómstundafulltrúi í Strandabyggð, stendur að nýrri menningarhátíð á Hólmavík sem fer fram í febrúar og nefnist Hörmungardagar.

„Ég flutti úr höfuðstaðnum út á land í leit að eymd, því ég hef svo gaman af því að sjá fólk kveljast,“ segir Esther Ösp.

„Síðan var hér bara eintóm hamingja. Á Hólmavík eru haldnir Hamingjudagar í júní. Í Fréttablaðið var meira að segja skrifuð frétt í fyrra með fyrirsögninni: „Héðan flytur enginn.“

Ég varð fyrir vonbrigðum með alla þessa hamingju,“ segir Esther Ösp.

„Þetta var ekki sú stemning sem ég var að leita eftir, þannig að ég tók málin í mínar hendur og ákvað að stofna Hörmungardaga, sem verða haldnir í febrúar.

Markmiðið er að breyta ásýnd staðarins þannig að hann verði meira eins og ímynd mín af landsbyggðinni áður en ég flutti.“

Dagskrá Hörmungardaga er tileinkuð heimsharminum. „Öll atriði eru enn í gerjun, en braggablús verður spilaður í bragganum hérna, sem er frábær tónlistarstaður.

Síðan verður morðgátukvöld. Grunnskólinn í Hólmavík sviðsetur flóttamannabúðir, og leikfélagið ætlar að sýna einþáttung úr harmleik.

Öllum er frjálst að taka þátt og túlka þemað eftir sínu höfði.“ Hörmungardagar verða haldnir 14.-16. febrúar á Hólmavík.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.