Lífið

Þú getur valið heimafæðingu

Marín Manda skrifar
Dögg Mósesdóttir kvikmyndagerðakona
Dögg Mósesdóttir kvikmyndagerðakona Fréttabladid/GVA
Dögg Mósesdóttir vinnur að heimildarmyndinni Valið, en myndin fjallar um val kvenna á fæðingarstöðum á Íslandi. Hún óskar eftir styrkjum til að ljúka myndinni á Karolinafund.

„Þetta byrjaði sem lítil fræðslumynd sem ég ætlaði að taka í fæðingarorlofinu mínu fyrir tæpum tveimur árum, en vinkona mín benti mér á að það væri ákveðin vöntun á umfjöllum um heimafæðingar vegna ýmissa ranghugmynda í samfélaginu,“ segir Dögg Mósesdóttir kvikmyndagerðarkona.

Sjálf ætlaði Dögg að eiga sitt barn heima en hún endaði í bráðakeisara uppi á Landspítala. „Ég prófaði eiginlega tvær fæðingar í einni og fékk reynslu bæði af spítala og heimafæðingu. Ég var svo fegin að vera eins lengi og ég gat heima.“ Dögg segir að ranghugmyndirnar snúist oft um það að fólk haldi að heimafæðing sé subbuleg og hættuleg en það sé fjarri lagi. Ljósmæðurnar beri mikla virðingu fyrir konunni og hlutverki hennar í fæðingunni. Þær sjái um öll þrif og leggja ríka áherslu á fyrstu tengslin milli barnsins og foreldranna.

Dögg er hálfnuð með myndina og segir þetta eldfimt viðfangsefni þar sem margir innan heilbrigðisgeirans eru ekki sérlega hrifnir af heimafæðingu. „Það eru skiptar skoðanir á þessu og það er sennilega ástæðan fyrir því hve erfitt sé að fá fjármagn í myndina því hún er óvenjuleg.“ Dögg hvetur konur til að kynna sér nánar möguleikana hjá Mæðraverndinni og óskar eftir að fá að vera viðstödd fleiri heimafæðingar.

Hægt er að styrkja verkefnið á Karolinafund hér en einnig geta velunnarar lagt beint inn á reikning 0321-26-8010 kt.1903792999.

Arney Þórarinsdóttir og Hrafnhildur Halldórsdóttir ljósmæður.
Arney Þórarinsdóttir og Hrafnhildur Halldórsdóttir eru sjálfstæðar ljósmæður hjá Björkinni og vinna eingöngu í heimafæðingum. Arney segir heimafæðingar einungis vera fyrir hraustar konur og bendir á að heimafæðingar hafi aukist undanfarin ár þar sem konur séu orðnar meðvitaðar um valið.

Í kringum 2% allra fæðinga á Íslandi eru heimafæðingar sem er hærra prósent en á hinum Norðurlöndunum.

„Margar konur eru hræddar við spítala sem getur haft áhrif á framgang fæðingarinnar en í heimafæðingu eru konur í umhverfi sem þær þekkja og eru öruggar í. Við ljósmæður erum með ýmislegt í töskunni en við notum en vatnið númer eitt, tvö og þrjú sem verkjastillandi,“ segir Arney Þórarinsdóttir.

Heimafæðing er mjög náin fjölskyldustund.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.