Lífið

Fallegur fálki vekur mikla athygli á Koli

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Inga María Brynjarsdóttir listakona stendur hér með fálkanum sínum.
Inga María Brynjarsdóttir listakona stendur hér með fálkanum sínum. fréttablaðið/pjetur
„Þetta tekur á og ég er líka drulluskítug upp fyrir haus,“ segir hin 33 ára gamla myndlistarkona og teiknari Inga María Brynjarsdóttir, sem er þessa dagana að leggja lokahönd á listaverk sem hún er að gera fyrir veitingastaðinn Kol Restaurant. Um er að ræða mikinn og stóran fálka sem prýðir einn vegg staðarins.

„Við vildum fá fálka því hann er svo íslenskur og fallegur. Ég vissi að Inga María væri vel kunnug því að teikna dýr og sá á fyrri verkum hennar hversu fábær hún er,“ segir Óli Már Ólason, einn þriggja eigenda nýs veitingastaðar sem ber nafnið Kol Restaurant. Ásamt Óla eru þeir Stefán Magnússon og Andri Björn Björnsson eigendur staðarins en fyrir eiga þeir veitinga- og skemmtistaðina Vegamót og Lebowski.

Inga María málar fálkann með fingrunum og sleppir öllum penslum og öðrum verkfærum.

„Ég nota kol og þurrpastel sem eru í krítarformi og skelli þeim á vegginn. Ég nota bara puttana við að koma þessu upp á vegginn. Ég þarf líka mikið af fixatívi til að festa þetta við vegginn,“ útskýrir Inga María. Hún segist kunna vel við þessa aðferð og segist njóta sín mjög vel svona grútskítug.

Það er ótrúlegt að það hafi einungis tekið Ingu Maríu viku að skapa þetta fallega listaverk en fálkinn er mjög stór eins og myndin sýnir.

„Þetta verk leyfir engin mistök því um leið og ég set þetta á vegginn þá er þetta þar. Það er kannski pínu heppni að hann skyldi haldast í hlutföllum,“ segir Inga María hress í bragði en hún gerir ráð fyrir að fullklára verkið í vikunni. Hún hefur teiknað í mörg ár en hefur minna verið í því að skreyta svona stóra veggi og meira teiknað á pappír.

Gert er ráð fyrir að staðurinn verði opnaður eftir um það bil tvær vikur. Staðurinn er við Skólavörðustíg 40. Hönnun hans er í höndum Leifs Welding og hans fólks, og er hugmyndin að baki henni að blanda saman hlýlegu nútímalegu íslensku yfirbragði með alþjóðlegu ívafi þar sem ljós og húsgögn frá Tom Dixon fá að njóta sín til fulls.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.