Lífið

Kenna krökkum um sjálfbærni og umhverfisvæn sjónarmið

Gunnar Leó Pálsson skrifar
F.v. Ásthildur Hanna Ólafsdóttir, Anna Karen Pálsdóttir, Guðrún Míra, Sara Líf Sigsteinsdóttir, Sara Mansour og Snædís Mjöll Kristjánsdóttir.
F.v. Ásthildur Hanna Ólafsdóttir, Anna Karen Pálsdóttir, Guðrún Míra, Sara Líf Sigsteinsdóttir, Sara Mansour og Snædís Mjöll Kristjánsdóttir. mynd/einkasafn
„Þessi hugmynd er sótt til Svíþjóðar og gengur í raun út á það að kenna börnum ýmislegt í tengslum við sjálfbærni og umhverfisvæn sjónvarmið,“ segir Hjördís Eva Þórðardóttir, réttindafræðslufulltrúi UNICEF á Íslandi. Ungmennaráð UNICEF stendur fyrir skiptidótamarkaði í Borgarbókasafninu við Tryggvagötu en þar geta börn gefið dótið sitt á markaðinn og fengið eitthvert annað dót í staðinn.

„Þetta virkar þannig að barnið leggur eitthvert leikfang eða bók inn í leikfangabanka og fær þá stimpil fyrir hvern hlut. Þá má barnið leika sér með þau leikföng sem í bankanum eru og svo velja sér annað dót í staðinn,“ útskýrir Hjördís Eva.

Hjördís Eva Þórðardóttir, réttindafræðslufulltrúi UNICEF á Íslandi
Markmiðið er að gefa börnum tækifæri til að leika sér, á sama tíma og þau læra um réttindi sín og umhverfisvæn sjónarmið. Boðið verður upp á vinnusmiðjur, þar sem börnin fá að vinna skapandi verkefni í tengslum við greinar úr Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. „Ég held að við séum að setja flóknar upplýsingar á einfalt form, og kenna þeim í gegnum leik. Þetta er svokallað „learning by doing“,“ segir Hjördís Eva.

Hún hefur sjálf farið með fjögurra ára son sinn á slíkan markað og sagði að sú reynsla hefði verið mjög ánægjuleg og lærdómsrík fyrir þau bæði.

Skiptidótamarkaðurinn fer fram í barnadeild Borgarbókasafnsins við Tryggvagötu og hefst klukkan 15.00 á sunnudaginn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.