Lífið

Þyrfti höll undir ljósakrónuna

Ugla Egilsdóttir skrifar
Sigríður Sigurðardóttir er að læra húsgagnasmíði í Tækniskólanum í Reykjavík.
Sigríður Sigurðardóttir er að læra húsgagnasmíði í Tækniskólanum í Reykjavík.
Sigríður Sigurðardóttir tréskurðarkona sýnir útskorna ljósakrónu úr sapílívið og fleiri verk á Þjóðminjasafninu á fimmtudaginn. „Ég var að taka ljósakrónuna upp úr kassanum þar sem hún hefur fengið að dúsa í tvö ár. Það var ánægjulegt að sjá að hún hefur ekki myglað,“ segir Sigríður. Hún lauk þriggja ára diplómanámi frá City & Guilds of London Art School í sögulegum og húsgagnatengdum tréútskurði og gyllingu árið 2011.

Ljósakrónan var útskriftarverkefni hennar. „Ég vildi gera eitthvað stórt og mikið í útskriftarverkefninu. Það er kannski hluti af því að vera Íslendingur að taka aðeins of stórt upp í sig,“ segir Sigríður. „Ég tók mér níu mánuði í að skera út ljósakrónuna. Það voru langir dagar og ég gerði ekki mikið annað. En ég náði að klára hana og fékk verðlaun við útskrift fyrir hana,“ segir Sigríður.

Fyrirmynd ljósakrónunnar er gyllt ljósakróna frá árinu 1740 sem hangir í V&A-safninu í london. Mynd/Atsushi Meguro.
Mikil fyrirferð er á ljósakrónunni, og Sigríður býr að eigin sögn ekki í heppilegu húsnæði til að ljósakrónan fái notið sín. „Ég djókaði með að ætla að kaupa mér höll til að hafa hana í. Það hefur ekki gerst enn þá,“ segir Sigríður. Sigríður smitaðist af tréskurðarbakteríunni eftir að hún fór á námskeið í tréskurði. „Þá vissi ég um leið að ég vildi læra þetta og verða tréskurðarkona. Mig langaði alltaf að vinna með höndunum, frekar en að vinna fyrir framan tölvu.“

Sýningin ber nafnið Viður við og við: útskurður Sigríðar Sigurðardóttur og verður opnuð á Torginu í Þjóðminjasafninu klukkan 15.30 fimmtudaginn 30. janúar. Sýningin er hluti af Vetrarhátíð í Reykjavík. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.