Lífið

Tvíburar með græjudellu

LILJA BJÖRK HAUKSDÓTTIR skrifar
Tvíburarnir Bjarni og Davíð Hedtoft Reynissynir stýra þættinum Geggjaðar græjur sem hefur göngu sína á Stöð 2 þriðjudaginn 11. febrúar. Þar munu þeir gefa áhorfendum innsýn í nýjustu græjur og afrek á sviði vísinda og leggja áherslu á mikilvægi þeirra.

Tveir fyrir einn

„Við förum á stúfana og skoðum allt sem er nýtt í græjuheiminum. Umfjöllunarefnið er fjölbreytt og skemmtilegt og upplýsir áhorfandann um nýsköpun og vísindi,“ segir Bjarni Hedtoft Reynisson, annar þáttastjórnendanna.

„Þátturinn er fyrir alla, einnig þá sem hafa enga reynslu af vísindum í daglegu lífi. Við munum fjalla um nýjar græjur eða uppfinningar sem hafa ekki sést áður, skemmtilega hluti sem bæta lífsgæði og gefa bros á vör, athyglisverðar og ótrúlegar rannsóknir, græjur sem koma á óvart og jafnvel fáránlegar uppfinningar sem enginn hefði getað séð fyrir. Svo prófum við líka græjurnar og þar sem það er svo mikið til af geggjuðum græjum þarf tvo þáttastjórnendur. Við erum líka svona tveir fyrir einn dæmi,“ segir hinn þáttastjórnandinn, Davíð Hedtoft Reynisson.

„Það fæst svo góður samanburður á vörum þegar þær eru prófaðar á tvíburum. Í þáttunum prófum við til dæmis tvö sjálfsmælingartæki sem mæla svefn, hreyfingu, kaloríuinntöku og fleira og svo berum við þau saman. Svo keppum við hvor á móti öðrum þegar við prófum græjurnar. Við reynum svo bara að skemmta okkur og áhorfendum um leið og við upplýsum fólk um allt það mest spennandi í græjuheiminum."

Ekki flókið mál

Geggjaðar græjur verður ekki flókinn tækniþáttur fyrir sérfræðinga eða vísindamenn. Hver þáttur hefur sína yfirskrift eins og til dæmis vélmenni, sjálfsmælingar, greind heimili og hátæknifatnaður.

„Við þurfum ekki að vita allt um græjuna til að geta fjallað um hana. Það verður ekkert hátæknital eða verið að greina græjuna í smáatriðum, þetta verður meira svona „Sjáiði þetta, þetta er geggjuð græja!“,“ segir Davíð.

Næstfyndnastir í Danmörku

Lögð er áhersla á skemmtanagildi þáttanna en þeir Bjarni og Davíð vöktu athygli þegar þeir sigruðu í keppninni „Næstfyndnustu menn Danmerkur“ sem Casper Christiansen, annar aðalleikaranna úr Klovn, stóð fyrir. „Við sendum inn brandara og svo snerist keppnin um það að fá sem flest „like“ frá Casper. Við fengum þúsund „like“ og urðum „Næstfyndnustu menn Danmerkur“, Casper Christiansen er auðvitað sá fyndnasti,“ segja bræðurnir og brosa.

Lífið hefur upp á margt að bjóða

Þeir Davíð og Bjarni voru með vikulega neytendaþætti í danska sjónvarpinu á árunum 2005 til 2006 þar sem þeir gerðu alls kyns prófanir á sjálfum sér. „Við fórum til dæmis báðir í klippingu, annar okkar fór á flotta, dýra stofu og hinn á ódýra. Svo spurðum við fólk á götunni hvort það sæi muninn. Við byggjum Geggjaðar græjur upp að einhverju leyti á þessari hugmynd. Lífið hefur uppá margt ótrúlegt að bjóða ef maður bara opnar augun."

Nánar hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.