Lífið

Heldur fyrstu einkasýninguna

Símon Birgisson skrifar
Anna Rún byrjar feril sinn í myndlistinni í listaborginni Montreal.
Anna Rún byrjar feril sinn í myndlistinni í listaborginni Montreal.
Myndlistarkonan Anna Rún Tryggvadóttir heldur til Montreal nú í vikunni en þar mun hún setja upp sína fyrstu einkasýningu í galleríinu The MAI í Plataeu-hluta Montreal. Sýning Önnu Rúnar er einnig lokaverkefni hennar í mastersnámi við Concordia-háskóla í Montreal.

„Já, ég er að fara núna eftir tvo tíma upp á flugvöll,“ sagði Anna Rún þegar blaðamaður heyrði í henni í gær.

„Þetta er auðvitað frábært tækifæri. Fyrsta stóra einkasýningin mín og gaman að geta unnið stóra sýningu í alvöru umhverfi.“

Anna Rún er tveggja barna móðir og þarf því að kveðja eiginmann og börn til að sinna listagyðjunni.

„Ég er auðvitað svolítið blúsuð í augnablikinu en það lagast þegar maður kemur út. Eiginmaður minn er líka listamaður og því getur lífið orðið talsvert flókið. En sem betur fer kemur fjölskyldan öll út daginn áður en sýningin verður opnuð og við munum því njóta dagsins saman.“

Sýningin heitir Render and React og er í formi innsetningar í 140 fermetra rými. „Ég verð svo úti í nokkrar vikur eftir að sýningin opnar og held áfram að vinna í henni. Ég lít ekki á opnunina sem lokapunkt heldur byrjunina á listrænu ferli,“ segir listakonan Anna Rún en sýning hennar verður opnuð 27. febrúar næstkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.