Skoðun

Gjöfin stóra

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir skrifar
Mikil umræða fer nú fram um líffæragjöf vegna andláts Skarphéðins Andra Kristjánssonar. Saga hans er einstök en eins og flestir vita dó hann í kjölfar umferðarslyss og gaf líffæri sín til sex einstaklinga. Hann hafði velt þessu fyrir sér, tekið ákvörðun og rætt við fjölskylduna án þess að óa fyrir að kallið kæmi svo snemma. Ég vil þakka foreldrum hans fyrir að segja okkur frá gjöf Skarphéðins og um leið votta þeim, fjölskyldu og vinum, mína dýpstu samúð.

Siv Friðleifsdóttir flutti þingsályktun um að ráðherra yrði falið að leggja fram frumvarp um ætlað samþykki við líffæragjöf. Á síðasta þingi afgreiddi velferðarnefnd málið frá sér, með breytingum þó, en það komst því miður ekki á dagskrá þingsins. Silja Dögg Gunnarsdóttir hefur nú lagt fram frumvarp um málið og það er á starfsáætlun velferðarnefndar.

Nefndin kynnti sér málið vel og Siðfræðistofnun Háskóla Íslands hélt málþing um siðferðileg álitamál vegna líffæragjafar. Ég leyfi mér að fullyrða að þingmenn séu almennt sammála um mikilvægi þess að fjölga líffæragjöfum. Breyting til að stuðla að því gæti verið að setja ætlað samþykki eða krafið samþykki í lög. Í síðara tilfellinu væri með skipulögðum hætti leitað eftir afstöðu fólks til mögulegrar líffæragjafar. Sumir siðfræðingar benda á að líffæragjöf sé mikilvæg gjöf og það eigi ekki að taka ákvörðunina um að gefa slíka gjöf af fólki með lagasetningu.

En ef til vill þarf ekki lagabreytingu. Á málþingi Siðfræðistofnunar kom fram að mikilvægasti áhrifaþátturinn á vilja fólks til að gefa líffæri væri að fram hefði farið almenn samfélagsumræða um mikilvægi líffæragjafar og spurningar sem vakna í kringum jafnviðkvæmt og stórt mál. Hvernig sem lögin um líffæragjöf verða þá er það alltaf réttur aðstandenda að neita. Umræða og fræðsla um líffæragjöf er því besta leiðin til að fjölga líffæragjöfum. Gjöfin hans Skarphéðins og foreldra hans er því enn stærri en þau grunaði.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×