Innanríkisráðuneyti Bandaríkjanna hefur staðfest við Barack Obama forseta að hvalveiðar Íslendinga í viðskiptaskyni minnki skilvirkni samnings um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna í útrýmingarhættu.
„Hvalveiðar Íslendinga grafa undan þeirri viðleitni um allan heim að vernda hvali,“ er haft eftir Sally Jewell innanríkisráðherra í tilkynningu frá ráðuneytinu.
Einnig kemur fram að árlegur langreyðarkvóti hafi aukist mikið. Þá gefi nýr fimm ára kvóti leyfi til veiða á allt að 770 langreyðum.
„Obama forseti mun ákvarða innan sextíu daga hvaða aðgerðir eru viðeigandi til að bregðast við staðfestingu ráðuneytisins,“ segir í svari frá Claire Cassel, upplýsingafulltrúa bandarísku fiski- og dýralífsþjónustunnar.
Samkvæmt bandarískum lögum getur forsetinn sett viðskiptabann á fiskinnflutning frá Íslandi. Aðeins einu sinni hefur verið gripið til slíks banns vegna hvalveiða og þá gegn Japan.
Sambærileg staða kom upp í júlí 2011. Þá gaf forsetinn fyrirmæli til alríkisstofnana um að ráðast í fjölda diplómatískra aðgerða til að hvetja Ísland til þess að breyta hvalveiðistefnu sinni.
Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra vildi ekki tjá sig um málið í dag.
