Handbolti

Ákvað að aðstoða mitt lið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Berglind Íris í leiknum gegn ÍBV í fyrrakvöld.
Berglind Íris í leiknum gegn ÍBV í fyrrakvöld. Fréttablaðið/valli
Berglind Íris Hansdóttir, fyrrum landsliðsmarkvörður, var heldur óvænt í marki Vals þegar að liðið vann sigur á ÍBV í bikarleik liðanna í fyrrakvöld. Hún lagði skóna á hilluna í mars árið 2011 en þá var hún á mála hjá Fredrikstad í Noregi. Hér á landi spilaði hún alla tíð með Val, síðast vorið 2010.

„Það er gaman að fá að spila aftur og stelpurnar eru auðvitað skemmtilegar. En það var aldrei planið að koma aftur,“ segir Berglind Íris sem svaraði kalli síns gamla félags eftir að Guðný Jenný Ásmundsdóttir, aðalmarkvörður liðsins, tognaði illa á dögunum.

„Það vantaði annan markvörð á æfingar en vonandi kemur Jenný aftur sem fyrst,“ bætir hún við.

Berglind er ekki í mikilli leikæfingu eins og gefur að skilja enda hafði hún ekki reiknað með því að spila handbolta á ný í efstu deild. Hún var þó ekki byrjuð að sakna þess að spila með þeim bestu.

„Eiginlega ekki. Ég var sátt við þá ákvörðun að hætta á sínum tíma og er enn. En ég ákvað að aðstoða mitt lið og mína félaga. Svo kemur framhaldið bara í ljós – það eru engin plön um að klára tímabilið eða neitt slíkt. Nú er ég með barn á heimilinu og þar sem kallinn er líka í íþróttunum er tíminn af skornum skammti,“ segir hún en maður Berglindar Írisar er Bjarni Ólafur Eiríksson, leikmaður knattspyrnuliðs Vals.

Berglind Íris, sem er 32 ára gömul, á að baki 106 leiki með íslenska landsliðinu og var aðalmarkvörður liðsins á EM 2010 í Danmörku er liðið tók í fyrsta sinn þátt í stórmóti.

Hún varði tíu skot í marki Vals gegn ÍBV en með sigrinum náðu Valskonur, sem eru ríkjandi bikarmeistarar, að tryggja sér sæti í undanúrslitum keppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×