Skoðun

Trúmál í skólum

Örn Bárður Jónsson skrifar
Nýlega vakti athygli mína grein í stórblaðinu New York Times um skólamál í Þýskalandi. Þar segir meðal annars:

Í fyrsta sinn bjóða þýskir skólar nú upp á kennslu um íslam handa nemendum í fyrstu bekkjum grunnskóla þar sem kennarar á vegum ríkisins fræða úr námsbókum sem til þess eru sérstaklega ritaðar. Þannig reyna opinberir aðilar að aðlaga hinn stóra minnihlutahóp sem múslímar eru og hamla gegn áhrifum róttækra trúarhugmynda. (Þýð. höf.)

Þjóðverjum er líklega ljóst að trúin er stærri hluti af lífi fólks en oft er talið hér á landi. Trúin verður ekki rekin inn í réttir prívatlífsins, inn á vettvang einkamála og þaðan af síður einangruð í gettóum sértrúar eða sektarianisma. Trúin skal rædd á hinum opinbera vettvangi. Þannig virðast Þjóðverjar hugsa.

Námskrá skóla í Hesse leggur að jöfnu fræðslu um íslam og kennslu í siðaboðskap mótmælenda og kaþólskra. Með þessu vill ríkið stuðla að skilningi nemenda á trúarhefðum hverra annarra og „bólusetja“ þá fyrir öfgafengnum skoðunum á sama tíma og trú hvers og eins er viðurkennd af ríkinu.

Í þýsku stjórnarskránni er foreldrum tryggður rétturinn til þess að börn þeirra fái fræðslu í þeirri trú sem fjölskyldan játar.

Hér á landi er langstærstur hluti barna skírður ár hvert til kristinnar trúar og þau börn ættu að fá fræðslu um sína trú – feimnislaust og af fullri einurð og án afsakana kennara – og þá með biblíusögum, sálmasöng, bænum og öllu sem tilheyrir. Börn annarrar trúar ættu að sjálfsögðu að hafa sama rétt.

Við getum án efa lært af þeim sem eru lengra komin í umræðunni um þátt trúar í menningunni og mikilvægi trúarbragða við mótun gildagrunns einstaklinga og þjóða.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×