Tónlist

Biður Bjögga um að syngja Afgan

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Björgvin Halldórsson og Bubbi Morthens hafa bætt við aukatónleikum.
Björgvin Halldórsson og Bubbi Morthens hafa bætt við aukatónleikum. mynd/gassi
„Ég væri til í að Bjöggi tæki lagið Afgan og hver veit nema hann taki fyrri hluta lagsins og svo komi ég inn eftir sóló,“ segir Bubbi Morthens sem kemur fram á tónleikum ásamt Björgvini Halldórssyni í apríl.

Miðar á tónleikana seldust upp á þremur klukkustundum og hefur því verið bætt við aukatónleikum 4. apríl.

Þessi tvö af stærstu nöfnum íslenskrar tónlistarsögu hafa ýjað að því að þeir muni taka lög hvor annars. „Mig langar mikið til þess að syngja lögin Skýið og Riddari götunnar,“ segir Bubbi spurður út í hvaða lög hann vilji helst taka.

Þeir félagar eru nú á leið í æfingabúðir fyrir tónleikana. „Þetta er bara eins og þegar Rocky fór í æfingabúðirnar til Síberu. Við þurfum að gera okkur klára fyrir tónleikana,“ segir Bubbi kátur.

Hann segist vera ákaflega þakklátur fyrir viðtökurnar. „Þetta kemur gleðilega á óvart því það er ekkert fyrirséð. Það er mikið af tónleikum fram undan á Íslandi og við vitum það báðir að það er ekkert gefins í þessu,“ útskýrir Bubbi.

Spurður út í nýtt efni frá þeim félögum, segist Bubbi ætla heimsækja Björgvin í Hljóðrita næstu daga. „Ég tek gítarinn með mér og er pottþéttur á að við búum til eitthvað saman og vonandi kántrí-slagara.“

Miðar á aukatónleikana sem fram fara 4. apríl eru farnir í sölu á midi.is. Enn er óráðið hvort fleiri tónleikum verði bætt við ef uppselt verður á aukatónleikana.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×