Landhelgisgæslan og Fáfnir Offshore hf. hafa undirritað fimm mánaða samning um að leigja sýslumanninum á Svalbarða varðskipið Tý frá byrjun maí næstkomandi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Landhelgisgæslunni.
Skipið verður leigt til eftirlits- og björgunarstarfa sem og almennra löggæslu- og þjónustustarfa fyrir sýslumanninn með heimahöfn í Longerbyen. Sýslumaðurinn fer með yfirstjórn allrar stjórnsýslu sem lýtur að aðkomu norska ríkisins á Svalbarða, þar með talið stjórn löggæslumála til sjós og lands, leitar, björgunar og umhverfismála.
Landhelgisgæslan hefur leitast við að koma eldri varðskipum í tímabundin verkefni þar sem ekki er fyrir hendi fjármagn til að halda úti rekstri þeirra hér við land.
Í tilkynningunni segir að samningurinn muni styrkja rekstur gæslunnar. Hún hefur beint og óbeint sinnt verkefnum fyrir sýslumanninn á Svalbarða gegnum árin en mikið samstarf hefur verið milli þyrlusveitar sýslumannsins og þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar.

