Skoðun

Á­skorun til kjúklingabænda

Elín Hirst skrifar

Nýlega lýsti ég áhyggjum mínum á Alþingi vegna þeirrar umræðu sem fram hefur farið í samfélaginu um meðferð á dýrum hér á landi, þá aðallega kjúklingum í tengslum við svokallaðan verksmiðjubúskap. Ég hef hlustað á það sem sagt hefur verið og skrifað af hálfu þeirra sem starfað hafa á slíkum búum og gert sérstakar athuganir á framkvæmd íslenskra dýraverndarlaga. Þær frásagnir vekja mér ugg í brjósti.



Ekki vil ég setja alla kjúklinga- eða svínabændur sem stunda svokallaðan verksmiðjubúskap undir sama hatt, en ég bið þá um að fara ekki fram úr sér á kostnað velferðar dýranna. Ég held að enginn neytandi vilji vera aðili að viðskiptum þar sem illa er farið með dýr til að ná niður verði eða auka hagkvæmni framleiðslunnar.



Samkvæmt lögum um velferð dýra sem samþykkt voru á Alþingi í fyrravor og tóku gildi 1. janúar síðastliðinn skal tryggt að dýr séu haldin í umhverfi sem samræmist sjónarmiðum um velferð dýra. Umhverfi þeirra skal vera þannig að þau geti athafnað sig, hreyft sig, hvílst, notið útivistar, beitar eða viðhaft annað atferli sem þeim er eðlilegt.



Frásagnir af því hvernig dýrum er slátrað til matvælaframleiðslu og þeim haldið lokuðum inni í miklum þrengslum vekja áleitnar spurningar um hvort farið sé að lögum um velferð dýra hér á landi. Einnig hef ég heyrt í fjölmiðlum frásagnir af því að í þau sé sparkað, þeim hent í veggi og jafnvel beinbrotin á leið til slátrunar. Ekki verður annað sagt en að slíkt framferði beri vott um hreina mannvonsku. Ég bið alla þá sem hafa ábyrgð á dýrahaldi með höndum, þá sérstaklega kjúklingabændur í ljósi umræðunnar, að fara gaumgæfilega ofan í saumana á því hvernig gætt er að velferð dýranna á búum þeirra.



Má í þessu samhengi minna á þau orð að framkoma okkar við hinn minnsta bróður segir til um hver við erum sjálf.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×