Gagnrýni

Amma og ömmubarn

Jónas Sen skrifar
Agnes Þorsteinsdóttir
Agnes Þorsteinsdóttir
Tónlist:

Blönduð söngdagskrá

Agnes Þorsteinsdóttir mezzósópran og Agnes Löve píanóleikari

Norræna húsinu laugardaginn 15. febrúar



Amma og ömmubarn héldu tónleika í Norræna húsinu á laugardaginn. Amman var Agnes Löve píanóleikari, barnabarnið Agnes Þorsteinsdóttir mezzósópran (f. 1990). Á dagskránni var fjöldinn allur af lögum, bæði innlendum og erlendum, auk þess sem aríur ráku lestina. Maður fékk því býsna góða hugmynd um hvers söngkonan er megnug.

Agnes Þorsteins er með fallega rödd, sérstaklega á efra sviðinu. Hún er silkimjúk, kraftmikil og hefur karakter. Einstöku tónar á neðra sviði voru eilítið ónákvæmir, sem má rekja til þess að söngkonan er jú að stíga sín fyrstu skref. Það lærir enginn að halda tónleika nema með því að gera það. Þetta voru debút-tónleikar.



Ógerningur er að fjalla um Agnesi án þess að nefna ömmuna í sömu andrá. Agnes Löve fylgdi söngkonunni af kostgæfni. Þá á ég ekki bara við að allar tímasetningar hafi verið nákvæmar. Heldur það að túlkun píanóleikarans var bókstaflega rafmögnuð. Hvort sem það var Flickan kom ifrån sin älsklings möte eftir Sibelius, Syngdu ei fagra eftir Rachmaninoff, söngperlur eftir Jón Ásgeirsson, litlar vögguvísur eða brjálaðar aríur. Alls staðar var túlkunin sönn og borin fram af smekkvísi og heiðarleika, en samt ástríðu.

Túlkunin á Von ewiger Liebe op. 43 nr 1 eftir Brahms var sérstaklega hrífandi. Það var einhver magnaðasti flutningur á því lagi sem ég hef heyrt. Þarna sprakk tónlistin í ógnarlegan hápunkt eins og gjarnan vill verða með tónlist Brahms. En píanóleikarinn hélt ávallt reisninni, þessum djúpa rytma sem varð að dáleiðandi undirólgu. Það var engin yfirborðsmennska eða tilgerð. Einmitt svona á Brahms að hljóma.



Þessi ákafi píanóleikur lyfti söngnum hvað eftir annað upp í hæstu hæðir. Agnes Þorsteinsdóttir lagði greinilega allt í túlkun sína. Útkoman var einstaklega falleg, þó hún væri stundum dálítið hrá eins og fyrr var greint frá. Lögin eftir Sibelius voru hvert öðru betra, lag Rachmaninoffs tregafullt og myrkt. Vögguvísa Faurés var full af seiðandi laglínum og einhverju ósegjanlegu í skáldskapnum sem gerði tónlistina svo lokkandi. Vínartónlistin í lokin var fyndin og aríur úr Cosi fan tutte eftir Mozart tilkomumiklar. Alls staðar var ljóðrænni fegurð miðlað til áheyrenda í söngnum. Manni leiddist aldrei. Agnes á erindi í óperuna, svo mikið er víst. Hún býr yfir spennandi hæfileikum; söngur hennar þarf bara aðeins að fágast. Hann mun gera það með tíð og tíma.



Ég verð að minnast á, svona í lokin, sambandið á milli píanóleikara og söngkonu. Það var óvanalega fallegt, sjálfsagt vegna skyldleikans. Amma og ömmubarn höfðu sjarmerandi sviðsframkomu – það var ekki bara gaman að hlusta á þær, heldur líka að horfa á þær. Þetta er dúett sem maður vill heyra í sem fyrst aftur.



Niðurstaða: Bráðskemmtilegir debút-tónleikar Agnesar Þorsteinsdóttur. Hún er ein efnilegasta söngkona sem ég hef heyrt í lengi. Amma hennar Agnes Löve lék með á píanó; leikur hennar var fullur af músík og skáldskap.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.