Handbolti

Valskonur fyrsta liðið í 27 ár sem vinnur bikarinn þrjú ár í röð

Óskar Ófeigur Jónsson og Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Berglind Íris Hansdóttir og Anna Úrsúla Guðmundsdóttir með bikarinn.
Berglind Íris Hansdóttir og Anna Úrsúla Guðmundsdóttir með bikarinn. Vísir/Daníel
Valskonur urðu um helgina fyrsta kvennaliðið í 27 ár til þess að vinna bikarinn þrjú ár í röð þegar þær unnu 24-19 sigur á Stjörnunni í úrslitaleik Coca Cola-bikarsins í Laugardalshöllinni.

„Þetta er skemmtilegri vani en að tapa,“ sagði Stefán Arnarson, þjálfari Vals, sem hefur stýrt liðinu öll þrjú árin. „Ég er ánægður að hafa komið hingað fimm sinnum og unnið þrisvar. Það er frábært. Ég er stoltur og liðið má vera stolt af því,“ sagði Stefán.

Valsliðið lagði grunninn að sigrinum á 19 mínútna kafla í seinni hálfleik þegar Hlíðarendaliðið breytti stöðunni úr 10-13 í 21-19. „Við spiluðum frábæra vörn og Begga var frábær í markinu. Þá er erfitt að skora hjá okkur og þær misstu trúna fannst mér,“ sagði Stefán.

Berglind Íris Hansdóttir (22 skot varin, 56 prósent markvarsla) og Anna Úrsúla Guðmundsdóttir (8 mörk) byrjuðu hvorugar tímabilið en áttu báðar stórleik í Höllinni á laugardaginn.

„Við klikkum á tveimur vítum og þremur dauðafærum í fyrri hálfleik. Mér fannst við alltaf hafa yfirhöndina,“ sagði Stefán.



- Bikarmeistarar þrjú ár í röð -

Stefán Arnarson, þjálfari Vals, varð aðeins þriðji þjálfarinn til að vinna bikar kvenna þrjú ár í röð. Þessir þjálfarar eru eftirtaldir:

Guðjón Jónsson Fram 1978-1980

Gústaf Björnsson Fram 1984-1986

Stefán Arnarson Valur 2012-2014

Hrafnhildur Skúladóttir, fyrirliði Valsliðsins,  varð ennfremur fyrsti fyrirliðinn í 34 ár (Oddný Sigsteinsdóttir 1978-1980) til að taka við bikarnum þrjú ár í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×