Innlent

Opnar á þjóðaratkvæði ef stjórnarskránni verður breytt

Jóhannes Stefánsson skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson eftir Kastljósviðtal í gær.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson eftir Kastljósviðtal í gær. Fréttablaðið/Daníel
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir ekki loku fyrir það skotið að kosið verði um áframhald viðræðna við Evrópusambandið á þessu kjörtímabili. Til að svo verði þurfi hins vegar fyrst að koma í gegn breytingum á stjórnarskránni svo hægt sé að kalla til bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu, en ekki ráðgefandi eins og hingað til hefur tíðkast.

„Ef menn eru að tala um umsókn að aðild að ESB þyrfti að vera til staðar heimild til að halda raunverulega þjóðaratkvæðagreiðslu, bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu, ekki bara svona könnun, eða ráðgefandi,“ segir Sigmundur í samtali við Fréttablaðið.

Í kosningabaráttunni lagði Framsóknarflokkurinn áherslu á að skýrt verði í stjórnarskrá hvernig hægt verði að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu og stjórnarskrárnefnd sem nú er að störfum hefur það verkefni meðal annars á sinni könnu.

Sigmundur segir: „Eins og sakir standa þá er ekki hægt að halda bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu, eingöngu ráðgefandi og um leið kemur fram í stjórnarskrá að [þingmenn] séu ekki bundnir af neinu nema sannfæringu sinni.“

Forsætisráðherra var í viðtali í Kastljósi í gærkvöldi þar sem hann sagði meðal annars að Sjálfstæðisflokkurinn hafi í stjórnarmyndunarviðræðunum síðasta vor ekki sett fram kröfu um þjóðaratkvæðisgreiðslu um ESB-mál og að framámenn innan ESB hefðu krafist þess að Ísland myndi skýra stöðu sína gagnvart aðildarviðræðunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×