Skoðun

Spillingagildrur

Oddný G. Harðardóttir skrifar
Forsætisráðherra virðist hafa úthlutað styrkjum, samtals 205 milljónum króna, til atvinnuskapandi verkefna í minjavernd án samráðs við landshlutasamtök eða sveitarfélög og án þess að auglýsa eftir umsóknum. Sveitarstjórnarmenn hafa lýst furðu sinni á þessu enda dæmi um að styrkveitingar hafi komið þeim í opna skjöldu. Sveitarfélagið Árborg fékk t.d. úthlutað 5 milljónum króna til að byggja grunn undir hús sem er í einkaeigu og Ísafjarðarbær 12 milljónum króna til verkefna sem bæjarstjórn hafði ekki óskað eftir.

Þessar ákvarðanir forsætisráðherra eru ekki til þess fallnar að auka traust á því hvernig fjármunum ríkisins er úthlutað eða hvernig þeim er varið. Til staðar eru ágætir verkferlar og farvegir til að veita styrkjum úr ríkissjóði, t.d. ýmsir lögbundnir sjóðir og menningar- og vaxtarsamningar sveitarfélaga. Þá ferla hefði forsætisráherra betur nýtt sér.

Fjárlaganefnd Alþingis hafði mikið fyrir því á síðasta kjörtímabili að breyta úthlutun á óskiptum liðum fjárlagafrumvarpsins. Fyrirkomulagið hafði verið gagnrýnt harðlega í mörg ár, m.a. af Ríkisendurskoðun og fulltrúum allra stjórnmálaflokka sem töldu að þarna væri lögð spillingargildra fyrir alþingismenn sem mætti ekki vera til staðar. Orðrómur var um að þingmenn væru að hygla sínu fólki sérstaklega.

Umbætur fjárlaganefndar gengu út á gegnsæi til að auka traust á því hvernig fjármunum ríkisins er skipt, á þarfagreiningu og eftirlit, bætta stjórnsýslu, yfirsýn yfir einstaka málaflokka og faglega umsýslu. Útgangspunkturinn var að fjárlaganefnd og fagnefndir geri tillögur um umfang einstakra fjárlagaliða en sjóðir, félagasamtök, menningarráð landshluta, vaxtarsamningar sveitarfélaga og ráðuneyti sjái um dreifingu til einstakra verkefna eftir ákveðnum viðmiðum. Ekki voru allir ánægðir með þetta umbótastarf fjárlaganefndar. Óánægðastir voru þeir sem höfðu greiðan aðgang að þingmönnum og fjárlaganefnd.

Vinnulag forsætisráðherra virðist vera í anda þess sem fjárlaganefnd hefur hafnað. Stjórnsýslan er óljós og úthlutunin ekki gegnsæ. Munurinn er þó sá að ráðuneyti heyra undir stjórnsýslulög en það gerir Alþingi ekki.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×