Innlent

Telja flugvallarfrumvarp vega freklega að rétti sveitarfélaga til sjálfsstjórnar

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Höskuldur Þórhallsson, alþingismaður Framsóknarflokks, er flutningsmaður frumvarps sem færa á Alþingi áhrif á skipulagsmál á Reykjavíkurflugvelli.
Höskuldur Þórhallsson, alþingismaður Framsóknarflokks, er flutningsmaður frumvarps sem færa á Alþingi áhrif á skipulagsmál á Reykjavíkurflugvelli. Fréttablaðið/Valli
„Þarna er vegið freklega að sjálfsstjórnarrétti sveitarfélaga og getur byggðaráð Bláskógabyggðar ekki með nokkrum hætti sætt sig við slíkar aðgerðir,“ segir byggðaráðið í umsögn um frumvarp á Alþingi sem færir ríkinu skipulagsvald á Reykjavíkurflugvelli.

„Byggðaráð gerir alvarlegar athugasemdir við þá grunnhugsun sem fram kemur í frumvarpinu, það er að skipulagsvald skuli tekið af viðkomandi sveitarfélagi með löggjöf sem þessari. Með þessum hætti er stigið skref sem almennt mætti óttast sem fordæmisgefandi,“ segir byggðarráðið sem kveður farsælla að unnið verði að framtíðarsýn svæðisins á grundvelli gildandi skipulagslaga.

Byggðaráðið kveður hins vegar afstöðu sína til Reykjavíkurflugvallar óbreytta. Ráðið hefur lýst óánægju sinni með þau áform borgaryfirvalda að flytja flugvöllinn burt úr Vatnsmýrinni. Það sé „skýlaus krafa“ að tekið verði tillit til hagsmuna og sjónarmiða annarra sveitarfélaga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×