Skoðun

Hugmyndir sem ekki standast

Katrín Jakobsdóttir skrifar
Formaður ráðgjafaráðs Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, Ragnar Árnason, birti grein undir yfirskriftinni „Samfélagsleg skaðsemi opinberra heilbrigðistrygginga“ í nýjasta tölublaði Hjálmars, blaðs hagfræðinema við Háskóla Íslands.

Hann leggur þar út af þeirri reglu að rétt verð sé lykilatriði innan hagfræðinnar og því eigi að gjalda varhug við opinberum niðurgreiðslum á kostnaði og segir að það skjóti því skökku við „þegar stórkostlegar niðurgreiðslur á heilbrigðisþjónustunni, sem er mjög veigamikill þáttur í framleiðslu og neyslu samfélagsins, eru ekki aðeins látnar með öllu afskiptalausar í þessari baráttu fyrir hagkvæmni heldur gerðar að samfélagslegri dyggð.“ Niðurstaða Ragnars er að „opinberar heilbrigðistryggingar rýra hag meðalmannsins í samfélaginu og þar með samfélagsins í heild“.

Niðurstaða Ragnars að hagur meðalmannsins sé mælikvarði á hag samfélagsins stenst ekki og endurspeglar fyrst og fremst ákveðna pólitíska sýn um að ekki séu til almannagæði sem allir eigi tilkall til. Það er auðvitað pólitísk ákvörðun en ekki hagfræðilegt reikningsdæmi hvort hér sé samfélag þar sem allir, ekki aðeins meðalmenn og hinir efnaðri, geta sótt sér heilbrigðisþjónustu og menntun. Almannagæði eru ekki aðeins náttúruauðlindir heldur líka gæði á borð við heilbrigðisþjónustu og menntakerfi sem samfélagið hefur skapað á þeim grundvelli að allir fái tækifæri til að lifa með reisn.

Ef við samþykkjum að það sé hagur samfélagsins að allir fái slík tækifæri þá skiptir líka máli að kerfið sem við höfum byggt upp hér er félagslegt heilbrigðiskerfi. Kostnaður félagslegra heilbrigðiskerfa er minni en skyldutryggingakerfa eins og t.d. í Frakklandi og Þýskalandi en langdýrust fyrir samfélagið eru einkarekstrarkerfi á borð við hið tvöfalda kerfi Bandaríkjanna. Við þetta bætist að félagsleg heilbrigðiskerfi eru skilvirkust og árangursríkust þegar við metum lýðheilsuárangur á móti kostnaði (og er þá átt við ævilengd, ótímabær dauðsföll, ungbarnadauða o.fl.).

Það er verulegt áhyggjuefni að helsti ráðgjafi fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins boði slíka stefnu dulbúna sem hagfræði og dragi af henni ályktanir sem ekki standast. Ráðherra hefur sjálfur ekki tekið undir þessa speki en í máli hans á Alþingi í gær kom fram að hann væri sérstakur áhugamaður um aukinn einkarekstur í heilbrigðiskerfinu þannig að það er ljóst að ríkisstjórnin stefnir í átt til aukinnar einkavæðingar á grunnþjónustu samfélagsins.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×