Skoðun

Nýi bandamaðurinn kvaddur

Ólafur Þ. Stephensen skrifar
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra tók rétta ákvörðun þegar hann afréð að fara í opinbera heimsókn til Úkraínu, sem hófst í gær. Það skiptir máli að íslenzk stjórnvöld tjái alveg skýrt stuðning sinn við baráttu stjórnvalda í Kænugarði gegn yfirgangi Rússa.

Gunnar Bragi hefur á undanförnum dögum jafnframt ákveðið að taka þátt í refsi- og þvingunaraðgerðum vestrænna ríkja gegn Rússlandi. Þannig mun Ísland taka þátt í aðgerðum Evrópusambandsins, sem fela meðal annars í sér ferðabann á rússneska og úkraínska embættismenn sem tengdir eru innlimun Rússa á Krímskaga.

Ísland á sömuleiðis aðild að gagnrýni NATO á aðgerðir Rússa í Úkraínu og hefur ásamt hinum EFTA-ríkjunum ákveðið að setja í frost viðræður um fríverzlun við tollabandalag Rússlands, Hvíta-Rússlands og Kazakstan.

Með þessu sýnir utanríkisráðherrann ekki einvörðungu stuðning við stjórnvöld í Úkraínu, heldur hefur hann – á þessu sviði að minnsta kosti – tekið forystuhlutverkið um mótun utanríkisstefnunnar af forseta Íslands, sem hefur verið eindreginn talsmaður nánari samskipta við Rússland á öllum sviðum.

Forsetinn hefur verið gagnrýndur fyrir orð sín á ráðstefnu um norðurslóðir í Bodø í Noregi, þar sem hann setti ofan í við norska aðstoðarutanríkisráðherrann eftir að sá síðarnefndi skammaði Rússa fyrir innrásina á Krímskaga. Sú gagnrýni er að sumu leyti ósanngjörn, því að forsetinn hefur mikið til síns máls.

Það hefur verið ákveðið prinsipp í norðurskautssamstarfinu að halda deilum um alþjóðamál utan þess og einblína á sameiginleg hagsmunamál heimskautsríkjanna. Það er því talsvert til í því hjá Ólafi Ragnari að norðurslóðaráðstefnan hafi ekki verið réttur vettvangur til að ræða yfirgang Rússa í Úkraínu.

Samstarfsríki Rússlands í Norðurskautsráðinu, Ísland þar með talið, hljóta hins vegar að hugsa sinn gang vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Það er sjálfsagt mál að reyna að halda samskiptum á vettvangi Norðurskautsráðsins á jákvæðum nótum eins lengi og hægt er. En ef þjóðremba og yfirgangur Rússa fara einnig að birtast á þeim vettvangi, er enginn grundvöllur lengur fyrir þeim jákvæðu samskiptum.

Forseti Íslands hefði sennilega ekki verið skammaður eins mikið fyrir framgöngu sína í Bodø ef hann hefði – á réttum vettvangi – gagnrýnt framgöngu Rússa í Úkraínu. Forsetinn hefur lengi tjáð sig svo frjálslega um utanríkismál að enginn tæki óstinnt upp þótt hann segði sína skoðun á yfirgangi Rússa við nágrannaríkið. Því mætti gjarnan fylgja greining á því hvernig helzti talsmaður nánari tengsla Íslands við Rússland sér fyrir sér samband ríkjanna eftir atburðina á Krímskaga.

Ríkisstjórnin, undir forystu Gunnars Braga, stendur réttilega með öðrum vestrænum ríkjum í því að fjarlægjast Rússland og gagnrýna framferði þarlendra ráðamanna gagnvart Úkraínu. Hvað finnst hinum mótanda utanríkisstefnunnar, þessum á Bessastöðum, um framgöngu nýja bandamannsins?




Skoðun

Sjá meira


×