"Við tókum ljósmyndir af vitum um allt land og heilluðumst alveg upp úr skónum. Úr urðu húsgögn sem við hönnuðum út frá formum vitanna,“ útskýrir Olga Hrafnsdóttir sem ásamt Elísabetu Jónsdóttur skipar hönnunardúettinn Volka.
Volki hefur meðal annars vakið athygli fyrir litríka prjónahönnun úr ull, svo sem teppi, trefla og púða og einnig kolla sem klæddir eru grófu hekli úr ull. Volki frumsýnir nú nýja húsgagnalínu á HönnunarMars sem kallast Viti. Línan innheldur inni- og útihúsgögn sem unnin eru úr stáli og viði, ljós í tveimur stærðum og kolla.

Þær Olga og Elísabet kynna nýju línuna í Mengi á Óðinsgötu 2 og verður opnun á miðvikudaginn 26. mars milli klukkan 17 og 20.
„Mengi er skemmtileg verslun með bókverk, myndlist og hönnun og alltaf á fimmtudögum, föstudögum og laugarögum eru uppákomur, ýmist tónleikar leiksýningar eða gjörningar. Við erum núna með vinnustofu í Mengi og ætlum að bjóða upp á léttar veitingar og tónlist á opnuninni. Við hlökkum mikið til, það er alltaf svo frábær stemning á HönnunarMars."