Lífið

Hebbi í Skímó í hvítum buffalo-skóm

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Herbert Viðarsson hress og kátur í flottu skónum.
Herbert Viðarsson hress og kátur í flottu skónum. Mynd/Dj Atli
„Þetta var nú bara Facebook-áskorun frá Hanna trommara, ég legg það nú ekki í vana minn að klæðast svona Buffalo-skóm,“ segir Herbert Viðarsson, bassaleikari Skítamórals, en hann stal senunni með því að klæðast hvítum Buffalo-skóm á dansleik sem sveitin kom fram á um liðna helgi á skemmtistaðnum Spot.

Skórnir, sem voru skjannahvítir, vöktu mikla athygli enda talsverður tími síðan Buffalo-skór voru í tísku en þeir voru alls ráðandi í skótísku landsmanna um miðjan tíunda áratug síðustu aldar.

Glæsilegir skórMynd/GeiriX


„Ég keypti skóna í Þýskalandi fyrir um tveimur árum. Við Gunni Óla vorum þar í menningarferð og keyptum þá á sígaunamarkaði í Frankfurt, þeir voru allavega ónotaðir og lúkka vel,“ segir Herbert um skóna en hann fékk þó engan kjánahroll að klæðast þeim um helgina.

Voru meðlimir Skítamórals ekki allir miklar Buffalo-aðdáendur á sínum tíma? „Við vorum aldrei í Buffalo-skóm en við vorum meira í Svear-skóm úr Gallabuxnabúðinni, þeir voru sverari en Buffalo-skór og voru líka háir.“

Herbert segir allt geta gerst næst þegar Skítamórall kemur fram. „Það er aldrei að vita hvað gerist næst, þetta var bara áskorun sem ég tók, kannski skora ég á Hanna að spila í bleikum netbol á næsta balli,“ segir Herbert léttur í lundu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×