Ábyrgur taprekstur Ólafur Þ. Stephensen skrifar 10. apríl 2014 07:00 Ákvörðun útgerðarfyrirtækisins Vísis hf. um að loka fiskvinnslu sinni á Húsavík, Djúpavogi og Þingeyri og flytja störfin til Grindavíkur hefur valdið fjaðrafoki. Á Alþingi í síðustu viku voru eigendur fyrirtækisins útmálaðir með klisjukenndum hætti sem kaldrifjaðir kvótakóngar, meðal annars með tilvísun til þess að Vísir hefði fengið úthlutað byggðakvóta á stöðunum. Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sakaði Vísi um skort á samfélagsábyrgð. „Líta þessir aðilar í Grindavík á þetta fólk sem hefur byggt upp þessi fyrirtæki sem einhverja þræla í vinnubúðum sem þeir geta tekið með sér á þann stað sem þeir kjósa hverju sinni? Eða er þetta fólk sem á rétt til að stunda vinnu á þeim stöðum sem það býr á, þar sem það hefur byggt upp heimili sín?“ Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra sagði ákvörðunina mikil vonbrigði og hann og ríkisstjórnina ætla að „skoða öll þessi mál til grunna“. Það er skiljanlega uggur á litlum stöðum yfir missi margra starfa. Látum vera að bæjaryfirvöld og verkalýðsfélög á hverjum stað horfi þröngt á sína byggðarhagsmuni. Það er hins vegar alveg fráleitt ef ráðherra ætlar að fara að skipta sér af ákvörðun einkafyrirtækis um að hagræða í rekstri sínum. Hér er ekki um það að ræða að burgeisar sem fengu kvótann gefins selji hann, stingi ágóðanum í vasann og skilji fólkið eftir atvinnulaust eins og í ljótu sögunum frá fyrstu árum kvótakerfisins. Hér er fyrirtæki í fullum en þungum rekstri, sem greiðir þjóðinni drjúgt gjald fyrir afnot sín af auðlindinni og þarf að taka erfiðar ákvarðanir um hvernig er bezt að bregðast við breytingum í umhverfinu. Það er heldur ekki boðlegt að saka Vísismenn um skort á samfélagsábyrgð. Þeir hafa boðið öllu starfsfólkinu störf í Grindavík og aðstoð við flutninga og húsnæðisleit. Þeir hafa líka boðizt til að útvega þeim sem ekki vilja flytja störf við nýja starfsemi á stöðunum þremur. Það er hins vegar rangt að fólk eigi einhvern „rétt“ á að stunda vinnu á staðnum þar sem það býr. Ef sá réttur væri til staðar væri í dag rekin alls konar óhagkvæm og þá væntanlega ríkisstyrkt starfsemi á stöðum sem fóru í eyði fyrir löngu. Hvað rökin um byggðakvótann varðar benda Vísismenn á að á móti samanlagt 623 tonna byggðakvóta sem fyrirtækinu hefur verið úthlutað undanfarin fimm ár, hafi það unnið tæplega 50 þúsund tonn af fiski í byggðarlögunum þremur. Byggðakvótinn skiptir því í rauninni engu máli í þessu samhengi. Í þessu máli er þeim sjónarmiðum enn og aftur haldið á lofti að það sé réttlætanlegt út frá sérhagsmunum einstakra byggðarlaga að reka óhagkvæman sjávarútveg, þar sem veiðiheimildir eru bundnar við sjávarplássin og fyrirtæki skikkuð til að hafa starfsemi á ákveðnum stöðum. Heildarhagsmunir greinarinnar og íslenzks efnahagslífs eru hins vegar þeir að rekinn sé öflugur og hagkvæmur sjávarútvegur, þar sem stjórnvöld virða það að eigendur fyrirtækja eru bezt til þess fallnir að ákveða hvernig starfsemi þeirra sé háttað. Kjarni málsins er það sem Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis, sagði í fréttum okkar á Stöð 2: „Það er engin samfélagsleg ábyrgð fólgin í því að halda áfram einhverju sem ekki gengur. Samfélagslega ábyrgðin felst í því að gera breytingar sem nauðsynlegar eru.“ Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Íslenskur útgerðarmaður, evrópsk verkakona Sigurgeir B. Kristgeirsson Skoðun Embættismenn og stjórnmálamenn 30 ára Pétur Berg Matthíasson Skoðun Áhrifaleysið – trúa menn því virkilega? Andrés Pétursson Skoðun Maður á sviði: Narsissisti í nánu sambandi Hrafnhildur Sigmarsdóttir Skoðun Siðferði og ábyrgð – lykillinn að trausti Sigvaldi Einarsson Skoðun Sýrland í stuttu máli Omran Kassoumeh Skoðun Bílastæði eru hættulegri en þú heldur Hrefna Sigurjónsdóttir Skoðun Brottvísanir frá sjónarhorni íslenskukennara Sigurlín Bjarney Gísladóttir Skoðun Köld eru kvennaráð – eða hvað? Halla Hrund Logadóttir Skoðun Halldór 07.12.2024 Halldór
Ákvörðun útgerðarfyrirtækisins Vísis hf. um að loka fiskvinnslu sinni á Húsavík, Djúpavogi og Þingeyri og flytja störfin til Grindavíkur hefur valdið fjaðrafoki. Á Alþingi í síðustu viku voru eigendur fyrirtækisins útmálaðir með klisjukenndum hætti sem kaldrifjaðir kvótakóngar, meðal annars með tilvísun til þess að Vísir hefði fengið úthlutað byggðakvóta á stöðunum. Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sakaði Vísi um skort á samfélagsábyrgð. „Líta þessir aðilar í Grindavík á þetta fólk sem hefur byggt upp þessi fyrirtæki sem einhverja þræla í vinnubúðum sem þeir geta tekið með sér á þann stað sem þeir kjósa hverju sinni? Eða er þetta fólk sem á rétt til að stunda vinnu á þeim stöðum sem það býr á, þar sem það hefur byggt upp heimili sín?“ Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra sagði ákvörðunina mikil vonbrigði og hann og ríkisstjórnina ætla að „skoða öll þessi mál til grunna“. Það er skiljanlega uggur á litlum stöðum yfir missi margra starfa. Látum vera að bæjaryfirvöld og verkalýðsfélög á hverjum stað horfi þröngt á sína byggðarhagsmuni. Það er hins vegar alveg fráleitt ef ráðherra ætlar að fara að skipta sér af ákvörðun einkafyrirtækis um að hagræða í rekstri sínum. Hér er ekki um það að ræða að burgeisar sem fengu kvótann gefins selji hann, stingi ágóðanum í vasann og skilji fólkið eftir atvinnulaust eins og í ljótu sögunum frá fyrstu árum kvótakerfisins. Hér er fyrirtæki í fullum en þungum rekstri, sem greiðir þjóðinni drjúgt gjald fyrir afnot sín af auðlindinni og þarf að taka erfiðar ákvarðanir um hvernig er bezt að bregðast við breytingum í umhverfinu. Það er heldur ekki boðlegt að saka Vísismenn um skort á samfélagsábyrgð. Þeir hafa boðið öllu starfsfólkinu störf í Grindavík og aðstoð við flutninga og húsnæðisleit. Þeir hafa líka boðizt til að útvega þeim sem ekki vilja flytja störf við nýja starfsemi á stöðunum þremur. Það er hins vegar rangt að fólk eigi einhvern „rétt“ á að stunda vinnu á staðnum þar sem það býr. Ef sá réttur væri til staðar væri í dag rekin alls konar óhagkvæm og þá væntanlega ríkisstyrkt starfsemi á stöðum sem fóru í eyði fyrir löngu. Hvað rökin um byggðakvótann varðar benda Vísismenn á að á móti samanlagt 623 tonna byggðakvóta sem fyrirtækinu hefur verið úthlutað undanfarin fimm ár, hafi það unnið tæplega 50 þúsund tonn af fiski í byggðarlögunum þremur. Byggðakvótinn skiptir því í rauninni engu máli í þessu samhengi. Í þessu máli er þeim sjónarmiðum enn og aftur haldið á lofti að það sé réttlætanlegt út frá sérhagsmunum einstakra byggðarlaga að reka óhagkvæman sjávarútveg, þar sem veiðiheimildir eru bundnar við sjávarplássin og fyrirtæki skikkuð til að hafa starfsemi á ákveðnum stöðum. Heildarhagsmunir greinarinnar og íslenzks efnahagslífs eru hins vegar þeir að rekinn sé öflugur og hagkvæmur sjávarútvegur, þar sem stjórnvöld virða það að eigendur fyrirtækja eru bezt til þess fallnir að ákveða hvernig starfsemi þeirra sé háttað. Kjarni málsins er það sem Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis, sagði í fréttum okkar á Stöð 2: „Það er engin samfélagsleg ábyrgð fólgin í því að halda áfram einhverju sem ekki gengur. Samfélagslega ábyrgðin felst í því að gera breytingar sem nauðsynlegar eru.“