Menning

Þetta var draumaverkefni

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Allt sem lýtur að þjóðlegum fróðleik, þjóðsögum og fornsögum finnst mér frábært að vinna með,“ segir Freydís.
"Allt sem lýtur að þjóðlegum fróðleik, þjóðsögum og fornsögum finnst mér frábært að vinna með,“ segir Freydís. Fréttablaðið/Vilhelm
Svona sér Freydís Búkollu, strákinn og skessurnar fyrir sér.
„Þetta var eiginlega draumaverkefni. Allt sem lýtur að þjóðlegum fróðleik, þjóðsögum og fornsögum finnst mér frábært að vinna með,“ segir Freydís Kristjánsdóttir teiknari um myndir sínar í bókinni Íslenskum þjóðsögum sem er nýkomin út.

Hún kveðst hafa fengið verkefnið í hendur síðastliðið sumar og afgangurinn af því ári hafi farið í skissuvinnu. „Ég byrjaði ekki að fullvinna myndirnar fyrr en núna um áramótin. Þetta var törn, heljarmikil törn,“ viðurkennir hún.



Skyldi hún gera myndirnar í tölvu?

„Ég hef alltaf teiknaðar myndir í grunninn. Í þetta skipti var ég með pennastöng og blek og svo vann ég þær áfram í tölvunni, skerpti þær, lagfærði og bætti við.“

Notaðir þú pennastöng eins og fólk skrifaði með í gamla daga?

„Já, ég iðkaði það svolítið á 10. áratugnum en lagði það á hilluna og hef ekki notað þá aðferð lengi. Hún er tímafrek og oft er eitthvað annað sem hentar betur í stíl. En útgefendurnir voru að leita að gömlu yfirbragði og pennastöngin og blekið hentuðu vel fyrir það útlit.



Við urðum sammála um að draga það fram og mér fannst það mjög skemmtilegt,“ segir Freydís og kveðst hafa verið í nánu samstarfi við feðgana Jóhannes Benediktsson og Benedikt Jóhannesson sem gefa bókina út.

„Þeir skoðuðu allar skissur og við köstuðum boltanum á milli. Það er svolítið óvenjulegt fyrir mig en gafst vel. Ég hugsa að margar myndanna hafi orðið betri fyrir vikið.“

Myndin Móðir mín í kví kví krafðist yfirlegu.




En var einhver ein mynd erfiðari en önnur?

„Já, myndin af móður minni í kví kví var ansi snúin og krafðist talsverðrar yfirlegu.“

Freydís segir eitt og annað í pípunum fyrir sumarið. „Ég myndskreytti bók í fyrrasumar sem heitir Tröllastrákurinn og er eftir Sirrý. Nú er ég að bíða eftir framhaldinu.“

Spurð í lokin nánar út í starf teiknarans svarar hún: „Það er misskemmtilegt, stundum hálfeinmanalegt, en þetta þjóðsagnaverkefni var sérstakt því að þar var um mikla samvinnu að ræða.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.