Skoðun

Aðildarviðræður og náttúruverndarhagsmunir

Árni Finnsson skrifar
Undirritaður bregst hér við áskorun Jóns Bjarnasonar, f.v. sjávarútvegsráðherra, um að þeir sem þegið hafi boðsferðir til Brussel geri hreint fyrir sínum dyrum. Ásamt fulltrúum þrennra annarra félagasamtaka þáði ég boðsferð til Brussel haustið 2009 til að kynnast starfi og stefnu ESB í umhverfismálum. Viðurkennist hér með að ég tók við rúmlega 300 evrum í umslagi sem á gengi dagsins eru u.þ.b. 50 þúsund krónur, auk þess sem þriggja stjörnu hótel og flugferð var greidd af framkvæmdastjórn stækkunardeildar sambandsins.

Á hinn bóginn eru dylgjur Jóns Bjarnasonar þess efnisv að þeir sem þegið hafa boðsferðir til Brussel láti slík ferðalög ráða afstöðu sinni til hvort slíta skuli aðildarviðræðum eða ekki, fáránlegar. Við fengum að kynnast umhverfislöggjöf Evrópusambandsins, hvernig hún hefur þróast og hver markmið hennar séu. Erindi sem Tony Long, framkvæmdastjóri Evrópuskrifstofu WWF, flutti um hvernig frjáls félagasamtök geta haft áhrif á löggjöf og stefnu Evrópusambandsins var einkar áhugavert. Aðildarviðræður hafa þegar knúið stjórnvöld hér heima til að breyta vinnubrögðum sínum í samskiptum við frjáls félagasamtök.

Hagsmunir hvalveiða

Ennfremur skal viðurkennt að undirritaður hugsaði sér gott til glóðarinnar vegna rýniskýrslu um stöðu umhverfismála hér á landi enda kom á daginn að Ísland verður að styrkja náttúruverndarlöggjöfina umtalsvert til að geta aðlagast umhverfis- og náttúruverndarlöggjöf ESB.

Af lestri skýrslna Alþjóðamálastofnunar HÍ og Hagfræðistofnunar HÍ má ráða að hvalveiðar verði seint hluti af aðlögun að Evrópusambandinu. Við framhald viðræðna verða því stjórnvöld að „…meta hvort rétt sé að veiða hval út frá hagsmunum landsins.“ Þar sem tekið verði „…mið af sjálfbærni, efnahagslegum forsendum og áhrifum á aðrar atvinnugreinar, t.a.m. hvalaskoðun,“ svo vitnað sé til orða Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar á bloggsíðu hans sl. mánudag.

Ísland á aðild að loftslagsstefnu ESB, tekur þar með á sig skuldbindingar ásamt 28 aðildarríkjum ESB í samræmi við KyotoII sem samþykkt var í Doha 2012. Á hinn bóginn, öfugt við félaga okkar í Brussel, hafa íslensk náttúruverndarsamtök nær enga aðkomu að stefnumótun í þessum mikilvæga málaflokki hér á landi.

M.ö.o. aðildarviðræður fela í sér umtalsverða hagsmuni fyrir þá sem vinna að umhverfisvernd hér á landi.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×