Skoðun

Tilkynning til barnaverndar er beiðni um aðstoð, ekki kæra

Þóra Jónsdóttir skrifar

Margir líta svo á að eitt það versta sem geti gerst í lífi foreldra sé að vera tilkynntir til barnaverndarnefndar. Með því sé því lýst yfir að foreldri eða aðstandandi sé ekki fær um að sinna hlutverki sínu gagnvart barni og því fylgi fordæming og skömm.

Það er ákaflega mikilvægt að minna á með reglubundnum hætti hver tilgangur með lagalegri tilkynningaskyldu til barnaverndarnefndar er. Tilkynning er ekki kæra, heldur beiðni um að barni og fjölskyldu þess verði veitt aðstoð.

Tilkynnandi kann að hafa hugboð um að barn sé í aðstæðum sem eru ekki góðar fyrir það, það fái ekki þann stuðning og atlæti sem nauðsynlegt er til að það þroskist og mikilvægt sé að koma því til aðstoðar. Það er því af umhyggju fyrir barninu, en ekki af óvild við foreldrana sem langflestar tilkynningar berast til barnaverndarnefnda. Tilkynning til barnaverndarnefndar er ekki dómur yfir frammistöðu aðstandenda barnsins. Við skyldum miklu fremur einblína á að barni berist aðstoð í aðstæðum sem taldar eru á einhvern hátt óheppilegar eða óheilbrigðar barninu. Hér skyldi ekki einblínt á það við hvern sé að sakast, heldur að aðstæður hafi þróast á þann veg að gera þurfi ráðstafanir til að koma barninu og fjölskyldu þess aftur á sporið.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi hafa það að markmiði að stuðla að bættum hag barna og fjölskyldna þeirra og að hafa áhrif á viðhorf til barna í samfélaginu. Barnaheill líta á það sem hlutverk sitt að tala máli barna og hvetja því samfélagið allt til að líta jákvæðum augum á þau tækifæri sem geta falist í að vera veittur stuðningur frá barnaverndarkerfinu.

Við vitum það öll sem reynt höfum, að það er ekki leikur einn að ala upp barn. Við erum misjafnlega sett hvað varðar félagslega, fjárhagslega eða heilsufarslega stöðu. Sumir hafa óþétt stuðningsnet og geta illa fengið aðstoð í uppeldishlutverki sínu. Sá stuðningur sem býðst þegar starfsfólk barnaverndarnefndar gerir vart við sig ætti vitanlega að þykja kærkominn og opna leiðir að nýjum tækifærum til að skapa barni gott og heilbrigt líf.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×