Lífið

Erfitt að glíma við náttúruöflin

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Ingvar E.Sigurðsson er nýkominn til landsins eftir tökur á kvikmyndinni Everest.
Ingvar E.Sigurðsson er nýkominn til landsins eftir tökur á kvikmyndinni Everest. Vísir/Valli
„Tökurnar gengu alveg glimrandi vel og við höfum verið í tökum víðs vegar um heiminn,“ segir leikarinn Ingvar E. Sigurðsson en hann er nýkominn heim eftir þriggja mánaða dvöl erlendis við tökur á kvikmyndinni Everest. Tökurnar á myndinni hafa farið fram víða en á meðal tökustaða eru Himalajafjöllin, ítölsku Alparnir, Cinecittà-stúdíóið í Róm og Pinewood-stúdíóið í London, ásamt fleiri merkum stöðum.

„Ég var í þokkalegu formi fyrir tökurnar en fór þó í nokkrar fjallgöngur fyrir myndina og var þjálfaður á Ítalíu og Íslandi í því hvernig maður eigi að bera sig að með allan búnaðinn. Þetta voru oft erfiðar aðstæður og tók mikið á,“ segir Ingvar spurður út í erfiðið í tökunum.

Eins og gengur eru aðstæður oft ákaflega erfiðar í slíkri háfjallagöngu og er ekkert til sparað í tökunum. „Það er þó gaman að takast á við náttúruöflin þótt þau séu ekki alltaf ekta.“

Eins og sönnum fjallagarpi sæmir var Ingvar dúðaður í dúngalla og gat því orðið ansi heitt í kolunum. „Það var bæði heitt og kalt, það gat verið kalt þegar maður var í fjöllunum en mjög heitt þegar maður var í stúdíóunum,“ bætir Ingvar við en hann leikur rússneskan fjallgöngugarp sem þekkir hlíðar Everest vel.

Hvernig er að vinna með Baltasar Kormáki, leikstjóra myndarinnar? „Við höfum unnið svo mikið saman og við vinnum alltaf mjög vel saman.“

Ingvar þurfti þó að fórna hlutverki í leikritinu Eldraunin því tökur á myndinni hófust seinna en gert var ráð fyrir. „Hilmir Snær reddaði því fyrir mig,“ segir Ingvar léttur í lundu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.