Heimskan nærir illskuna Jakob Bjarnar Grétarsson skrifar 28. apríl 2014 12:30 Eldraunin:"Það ætti að skylda alla landsmenn til að sjá þessa mjög svo góðu sýningu.“ mynd/þjóðleikhúsið Leiklist: Eldraunin Þjóðleikhúsið - Stóra svið Höfundur Arthur Miller Leikstjóri Stefan Metz Hljóðmynd Halldór Snær Bjarnason Leikmynd og búningar Sean Mackaoui Lýsing Ólafur Ágúst Stefánsson Þýðing Kristján Þórður Hrafnsson Þar sem frumsýning Þjóðleikhússins síðastliðið föstudagskvöld var óður til sannleikans er réttast að tala hreint út: Nú er öld heimskunnar. Lýðræðið hefur keyrt inn blindgötu; allar skoðanir eru metnar jafngildar burtséð frá því hvort þær byggja á þekkingu eða ekki. Afsprengi þessa er til að mynda sú einkennilega hugmynd, sem nú er viðtekin, að á löggjafarþingi eigi að sitja þverskurður þjóðarinnar en ekki þeir sem hæfastir eru til þess. Skynsemi má sín lítils. Kæfandi pólitískur rétttrúnaður er ríkjandi, gagnrýnin hugsun má víkja, tilgangurinn helgar meðalið og við slíkar aðstæður nær bókstafstrú og ofstæki máli. Þetta eru hættulegir tímar því heimskan nærir illskuna. Þá er kölski í essinu sínu og tekur sér bólstað þar sem síst skyldi – kannski jafnvel í brjóstum „góða fólksins“. Lærðir menn láta múgsefjun kengbeygja sig – því það þjónar persónulegum hagsmunum þeirra til skamms tíma.Sérhagsmunir vatn á myllu kölska Þjóðleikhúsið hittir beint í mark með verkefnavali sínu; sinnir þeirri skyldu sinni að kynna áhorfendum sínum klassískt verk sem jafnframt á brýnt erindi við íslenskan samtíma. Þegar slíkt heppnast er leikhús eins og leikhús á að vera. The Crucible, eða Eldraunin, eftir Arthur Miller er snilldar vel skrifað – „well made play“ – sem byggir á sannsögulegum atburðum sem eru galdramál í þorpinu Salem í Massachussets árið 1692. Verkið var ekki síður talið fjalla um ritunartíma sinn, snemma á 6. áratug síðustu aldar þegar McCarthyisminn óð hindrunarlaust uppi; óameríska nefndin hundelti alla sem grunaðir voru um kommúnisma og var Miller sjálfur einn þeirra sem kallaður var fyrir nefndina. Í Eldrauninni eru nokkrar ungar stúlkur staðnar að því að dansa trylltar úti í skógi, í kjölfarið leggjast tvær veikar og samstundis rísa raddir þess efnis að sá svarti hafi sent útsendara sína á staðinn og vonlaust reynist að kveða þann kvitt í kútinn. Stúlkurnar bregðast við með því að saka aðra um að vera andsetnir. Góður jarðvegur er fyrir slíkar ásakanir og það sem gerir verkið að klassík er að fáviskan er hvött áfram og helst í hendur við ýmsa sérhagsmuni – skynsemin má sín lítils gegn því þá er menn vilja verja stöðu sína og sjá sér ekki hag í því að rísa upp gegn einhverju því sem ekki stenst. Lítilmennska en hljómar því miður alltof kunnuglega.Tímaleysi til grundvallar Uppsetning Stefans Metz leikstjóra miðar að því að undirstrika tímaleysi og að textinn fái notið sín í flutningi leikaranna. Leikmyndin er fremur einföld en áhrifarík og búningar eru hlutlausir. Þó sá sem þetta ritar hefði gjarnan viljað sjá tilraunir gerðar með að stíga skref í átt til nútímans þá geta slíkar æfingar vitaskuld endað með ósköpum. Verkið er kyrfilega skrifað inn í tiltekinn tíma. Lögnin er hugsuð þannig að áhorfandans er að setja verkið í samhengi og uppsetningin fremur hefðbundin. Kristján Þórður Hrafnsson þýðir verkið, sem áður hefur verið sett upp á Íslandi í þýðingu Jakobs Benediktssonar. Hin nýja þýðingin er furðu fornleg og mér liggur við að segja óþjál – ekki til þess fallin að tengja við nútímann. Hún stendur nær ritmáli en talmáli og gerir leikurum ekki auðvelt að ná hinni æskilegu tengingu við Ísland dagsins í dag. Stundum fannst manni eins og það vantaði bara þéringarnar. Þetta er nokkuð sem erfitt hlýtur að vera fyrir erlendan leikstjóra að átta sig á. Þeim mun meira afrek verður þá að teljast að hafa náð að kalla fram það besta í sterkum leikhópi Þjóðleikhússins.Leikarar fara á kostum Þetta er fremur mannmörg sýning, átján leikarar taka þátt og erfitt að taka einhvern sérstaklega út úr; allir áttu góðan dag. Hilmir Snær Guðnason fer með hlutverk Johns Proctor – hans síðasta hlutverk hjá Þjóðleikhúsinu að sinni. Hilmir Snær hefur auðvitað sýnt á löngum og farsælum ferli að hann er einn okkar allra bestu leikara. Hann fer sérlega vel með hlutverk Proctors sem stendur frammi fyrir erfiðum siðferðilegum spurningum. Samleikur hans og Margrétar Vilhjálmsdóttur, sem fer með hlutverk konu Proctors, er frábær en samband þeirra er langt í frá einfalt. Margrét fór vel með sitt, lék á hófstilltum nótum og datt ekki í þá gryfju að yfirdramatísera en sú hætta blasir við. Þjóðleikhúsið hefur veðjað á Elmu Stefaníu Ágústsdóttur og ljóst að þar fer mikið efni. Hún sýndi fyrr á þessu leikári mikinn styrk í Harmsögu og er sem teiknuð í hlutverk Abigail – stúlkunnar sem svífst einskis og steypir fólki í glötun ef það hentar. Það gerir Elma Stefanía á snaggaralegan og sannfærandi hátt. Ekki verður hjá því komist að nefna þann fjársjóð sem Þjóðleikhúsið á í fólki eins og Arnari Jónssyni, Guðrúnu Gísladóttur og Sigurði Skúlasyni. Þau léku við hvurn sinn fingur í þessu sterka verki og sköpuðu eftirtektarverðar persónur. Það gerðu einnig Vigdís Hrefna Pálsdóttir og Stefán Hallur Stefánsson – svo einhver séu nefnd.Niðurstaða: Skoðun þess sem hér heldur um penna er sú að það ætti að skylda alla landsmenn til að sjá þessa mjög svo góðu sýningu; svo brýnt erindi á hún við íslenskan samtíma. Gagnrýni Mest lesið Dóttir Anítu Briem og Hafþórs komin með nafn Lífið „Veganismi er hvergi skilgreindur sem fullkomnun eða ekkert“ Lífið Kynferðislega ófullnægður forstjóri finnur sér ungan graðfola Gagnrýni Harmleikur í Hollywood: Hús fræga fólksins fuðra upp Lífið Tóku sögufrægt 340 fermetra einbýli við Bergstaðastræti í gegn Lífið Þjóðin mætt að hreyfa sig og mömmurnar eru ekki skildar eftir út undan Lífið Hefur grátið óteljandi tárum yfir missinum Lífið Gott að sakna en verðum að hugsa í núinu Lífið Patrik í hálfrar milljón króna skíðagalla Tíska og hönnun Getuleysi á stóra sviðinu Gagnrýni Fleiri fréttir Kynferðislega ófullnægður forstjóri finnur sér ungan graðfola Nýársswing með handbremsu Getuleysi á stóra sviðinu Barist um arfinn í Borgó Brostnar væntingar á Frostrósum Jólakötturinn hvæsti á tónleikagesti Bríet olli vonbrigðum Sjá meira
Leiklist: Eldraunin Þjóðleikhúsið - Stóra svið Höfundur Arthur Miller Leikstjóri Stefan Metz Hljóðmynd Halldór Snær Bjarnason Leikmynd og búningar Sean Mackaoui Lýsing Ólafur Ágúst Stefánsson Þýðing Kristján Þórður Hrafnsson Þar sem frumsýning Þjóðleikhússins síðastliðið föstudagskvöld var óður til sannleikans er réttast að tala hreint út: Nú er öld heimskunnar. Lýðræðið hefur keyrt inn blindgötu; allar skoðanir eru metnar jafngildar burtséð frá því hvort þær byggja á þekkingu eða ekki. Afsprengi þessa er til að mynda sú einkennilega hugmynd, sem nú er viðtekin, að á löggjafarþingi eigi að sitja þverskurður þjóðarinnar en ekki þeir sem hæfastir eru til þess. Skynsemi má sín lítils. Kæfandi pólitískur rétttrúnaður er ríkjandi, gagnrýnin hugsun má víkja, tilgangurinn helgar meðalið og við slíkar aðstæður nær bókstafstrú og ofstæki máli. Þetta eru hættulegir tímar því heimskan nærir illskuna. Þá er kölski í essinu sínu og tekur sér bólstað þar sem síst skyldi – kannski jafnvel í brjóstum „góða fólksins“. Lærðir menn láta múgsefjun kengbeygja sig – því það þjónar persónulegum hagsmunum þeirra til skamms tíma.Sérhagsmunir vatn á myllu kölska Þjóðleikhúsið hittir beint í mark með verkefnavali sínu; sinnir þeirri skyldu sinni að kynna áhorfendum sínum klassískt verk sem jafnframt á brýnt erindi við íslenskan samtíma. Þegar slíkt heppnast er leikhús eins og leikhús á að vera. The Crucible, eða Eldraunin, eftir Arthur Miller er snilldar vel skrifað – „well made play“ – sem byggir á sannsögulegum atburðum sem eru galdramál í þorpinu Salem í Massachussets árið 1692. Verkið var ekki síður talið fjalla um ritunartíma sinn, snemma á 6. áratug síðustu aldar þegar McCarthyisminn óð hindrunarlaust uppi; óameríska nefndin hundelti alla sem grunaðir voru um kommúnisma og var Miller sjálfur einn þeirra sem kallaður var fyrir nefndina. Í Eldrauninni eru nokkrar ungar stúlkur staðnar að því að dansa trylltar úti í skógi, í kjölfarið leggjast tvær veikar og samstundis rísa raddir þess efnis að sá svarti hafi sent útsendara sína á staðinn og vonlaust reynist að kveða þann kvitt í kútinn. Stúlkurnar bregðast við með því að saka aðra um að vera andsetnir. Góður jarðvegur er fyrir slíkar ásakanir og það sem gerir verkið að klassík er að fáviskan er hvött áfram og helst í hendur við ýmsa sérhagsmuni – skynsemin má sín lítils gegn því þá er menn vilja verja stöðu sína og sjá sér ekki hag í því að rísa upp gegn einhverju því sem ekki stenst. Lítilmennska en hljómar því miður alltof kunnuglega.Tímaleysi til grundvallar Uppsetning Stefans Metz leikstjóra miðar að því að undirstrika tímaleysi og að textinn fái notið sín í flutningi leikaranna. Leikmyndin er fremur einföld en áhrifarík og búningar eru hlutlausir. Þó sá sem þetta ritar hefði gjarnan viljað sjá tilraunir gerðar með að stíga skref í átt til nútímans þá geta slíkar æfingar vitaskuld endað með ósköpum. Verkið er kyrfilega skrifað inn í tiltekinn tíma. Lögnin er hugsuð þannig að áhorfandans er að setja verkið í samhengi og uppsetningin fremur hefðbundin. Kristján Þórður Hrafnsson þýðir verkið, sem áður hefur verið sett upp á Íslandi í þýðingu Jakobs Benediktssonar. Hin nýja þýðingin er furðu fornleg og mér liggur við að segja óþjál – ekki til þess fallin að tengja við nútímann. Hún stendur nær ritmáli en talmáli og gerir leikurum ekki auðvelt að ná hinni æskilegu tengingu við Ísland dagsins í dag. Stundum fannst manni eins og það vantaði bara þéringarnar. Þetta er nokkuð sem erfitt hlýtur að vera fyrir erlendan leikstjóra að átta sig á. Þeim mun meira afrek verður þá að teljast að hafa náð að kalla fram það besta í sterkum leikhópi Þjóðleikhússins.Leikarar fara á kostum Þetta er fremur mannmörg sýning, átján leikarar taka þátt og erfitt að taka einhvern sérstaklega út úr; allir áttu góðan dag. Hilmir Snær Guðnason fer með hlutverk Johns Proctor – hans síðasta hlutverk hjá Þjóðleikhúsinu að sinni. Hilmir Snær hefur auðvitað sýnt á löngum og farsælum ferli að hann er einn okkar allra bestu leikara. Hann fer sérlega vel með hlutverk Proctors sem stendur frammi fyrir erfiðum siðferðilegum spurningum. Samleikur hans og Margrétar Vilhjálmsdóttur, sem fer með hlutverk konu Proctors, er frábær en samband þeirra er langt í frá einfalt. Margrét fór vel með sitt, lék á hófstilltum nótum og datt ekki í þá gryfju að yfirdramatísera en sú hætta blasir við. Þjóðleikhúsið hefur veðjað á Elmu Stefaníu Ágústsdóttur og ljóst að þar fer mikið efni. Hún sýndi fyrr á þessu leikári mikinn styrk í Harmsögu og er sem teiknuð í hlutverk Abigail – stúlkunnar sem svífst einskis og steypir fólki í glötun ef það hentar. Það gerir Elma Stefanía á snaggaralegan og sannfærandi hátt. Ekki verður hjá því komist að nefna þann fjársjóð sem Þjóðleikhúsið á í fólki eins og Arnari Jónssyni, Guðrúnu Gísladóttur og Sigurði Skúlasyni. Þau léku við hvurn sinn fingur í þessu sterka verki og sköpuðu eftirtektarverðar persónur. Það gerðu einnig Vigdís Hrefna Pálsdóttir og Stefán Hallur Stefánsson – svo einhver séu nefnd.Niðurstaða: Skoðun þess sem hér heldur um penna er sú að það ætti að skylda alla landsmenn til að sjá þessa mjög svo góðu sýningu; svo brýnt erindi á hún við íslenskan samtíma.
Gagnrýni Mest lesið Dóttir Anítu Briem og Hafþórs komin með nafn Lífið „Veganismi er hvergi skilgreindur sem fullkomnun eða ekkert“ Lífið Kynferðislega ófullnægður forstjóri finnur sér ungan graðfola Gagnrýni Harmleikur í Hollywood: Hús fræga fólksins fuðra upp Lífið Tóku sögufrægt 340 fermetra einbýli við Bergstaðastræti í gegn Lífið Þjóðin mætt að hreyfa sig og mömmurnar eru ekki skildar eftir út undan Lífið Hefur grátið óteljandi tárum yfir missinum Lífið Gott að sakna en verðum að hugsa í núinu Lífið Patrik í hálfrar milljón króna skíðagalla Tíska og hönnun Getuleysi á stóra sviðinu Gagnrýni Fleiri fréttir Kynferðislega ófullnægður forstjóri finnur sér ungan graðfola Nýársswing með handbremsu Getuleysi á stóra sviðinu Barist um arfinn í Borgó Brostnar væntingar á Frostrósum Jólakötturinn hvæsti á tónleikagesti Bríet olli vonbrigðum Sjá meira