Gagnrýni

Fagurlega leikið og dillandi impróvisasjón

Jónas Sen skrifar
 "Þórir Baldursson er hins vegar músíkant af guðs náð. Hann spilar einstaklega fallega á Hammond-orgel, semur flott lög og útsetur allt mögulegt.“
"Þórir Baldursson er hins vegar músíkant af guðs náð. Hann spilar einstaklega fallega á Hammond-orgel, semur flott lög og útsetur allt mögulegt.“ Vísir/Valli
Tónlist:

Afmælistónleikar til heiðurs Þóri Baldurssyni sjötugum

Þórir Baldursson ásamt Stórsveit Reykjavíkur og gestasöngvurum í Silfurbergi í Hörpu mánudaginn 5. maí.



Sumir atvinnutónlistarmenn eru býsna sérhæfðir. Þeir eru fimir hljóðfæraleikarar, en geta ekki samið tónlist, hvað þá leikið af fingrum fram. Aðrir eru tónskáld en eru lélegir spilarar. Þeir þurfa aðra til að flytja verkin sín.



Þórir Baldursson er hins vegar músíkant af guðs náð. Hann spilar einstaklega fallega á Hammondorgel, semur flott lög og útsetur allt mögulegt. Hann er sjötugur um þessar mundir og í tilefni afmælisins hélt Stórsveit Reykjavíkur tónleika honum til heiðurs í Silfurbergi í Hörpu á mánudagskvöldið. Þar var spilað á málmblásturshljóðfæri, saxófóna, þverflautur, trommur, gítar og bassa, auk þess sem Þórir stjórnaði frá orgelinu.



Þórir hefur fallegt bros og heilmikinn sviðssjarma. Það átti ekki lítinn þátt í því hve dagskráin var vel heppnuð. Hljómsveitin var óaðfinnanleg, samspilið nákvæmt og alls konar impróvisasjónir ýmissa hljóðfæraleikara voru fagrar og dillandi.



Lögin voru úr ýmsum áttum, þótt yfirbragð þeirra væri fremur svipað. Swing-ið var alltaf áberandi og það vantaði bara mann í hvítum jakkafötum á sviðið. Náunga á borð við Fredo Corleone úr Guðföður-myndunum. Einhvers konar Las Vegas-stemning sveif yfir vötnunum, sem var skemmtilegt að upplifa.



Nokkrir hljóðfæraleikarar voru, fyrir utan Þóri, í aðalhlutverkum. Þar má nefna saxófónleikarana Sigurð Flosason og Jóel Pálsson. Þeir skiluðu sínu með afburðum. Jóel lék listavel eftirlíkingu af sólói sem Rúnar Georgsson heitinn spilaði á sínum tíma af fingrum fram í lagi eftir Magnús Eiríksson. Og eftir Sigurð var flutt skondið lag, Hankaður, auk þess sem hann lék einleik í fyrsta laginu sem Þórir samdi, Sunnubraut seytján.

Nokkrir söngvarar heiðruðu afmælisbarnið. Þar fór fyrst á svið dóttir Þóris, Sunna Margrét. Hún skartaði fallegri rödd, en íslenski textaframburðurinn í laginu Leyndarmál eftir Þóri var einkennilega bjagaður. Raggi Bjarna var hins vegar með allt á hreinu ef undan er skilið að hann mundi ekki textann í laginu Flottur jakki eftir Leon René. Besti söngvarinn var Björgvin Halldórsson, sem söng um Brúðarskóna, lag Þóris frá því þegar hann var í Savannatríóinu. Röddin var þétt og flott, sviðsframkoman afslöppuð. Björgvin var miklu meira ekta en Bubbi Morthens, sem virkaði tilgerðarlegur í Þingmannagælu og Ísbjarnarblús. Það var pínlegt að horfa á.



En aðalmaðurinn var auðvitað Þórir sjálfur. Eins og áður sagði er hann fagmaður fram í fingurgóma og lögin hans eru mörg frábær. Persónulega held ég mest upp á Jarðarfarardag, sem var ekki á dagskránni að þessu sinni, en það á eftir að lifa með þjóðinni. Maður sem getur samið slíkan gullmola er ekkert annað en snillingur.



Niðurstaða: Misflottir söngvarar, en hljómsveitin var frábær og Þórir Baldursson lék meistaralega vel á Hammondinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×