Tónlist

Dusta rykið af hljóðfærunum

Baldvin Þormóðsson skrifar
Guðmundur Hreiðarsson er einn meðlima brassbandsins.
Guðmundur Hreiðarsson er einn meðlima brassbandsins. Mynd/Úr einkasafni
Það er ekki á hverjum degi sem verða til lúðrasveitir á Íslandi en gamlir skólafélagar úr Grafarvogi ákváðu að rifja upp gamla takta og stofnuðu Brassband Reykjavíkur á dögunum.

„Við tókum saman í fyrra eftir mikla endurfundi,“ segir Guðmundur Hreiðarsson, einn meðlima brassbandsins. „Stofnmeðlimir skólahljómsveitarinnar komu saman og spiluðu í tilefni tuttugu ára afmælis hennar,“ segir Guðmundur en flestir hljóðfæraleikararnir höfðu ekki spilað í um áratug þegar tónleikarnir fóru fram.

„Síðan gátum við einfaldlega ekki hætt að spila eftir tónleikana og úr varð Brassband Reykjavíkur,“ segir Guðmundur.

Brassbandið sker sig úr hefðbundnum lúðrasveitum þar sem það eru einungis málmblásturshljóðfæri í bandinu.

„Brassið varð til í Englandi þegar námumennirnir voru sendir í brassbönd svo þeir væru ekki að drekka sig fulla á kvöldin,“ segir hljóðfæraleikarinn og hlær. „Síðan voru þeir látnir spila á lúðra því það voru ódýrustu hljóðfærin.“

Hljómsveitin fer ekki hægt af stað en hún kemur fram á tónleikum næsta miðvikudag klukkan átta í Fella- og Hólakirkju. „Þetta er ferlega skemmtilegt fyrir okkur sem erum að spila og ég vona að það sé það líka fyrir þá sem hlusta,“ segir Guðmundur og hlær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×