Erlent

Enn þokast í samkomulagsátt

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Günther Oettinger ræddi við blaðamenn að loknum fundi fulltrúa orkufyrirtækjanna rússnesku og úkraínsku í gær.
Günther Oettinger ræddi við blaðamenn að loknum fundi fulltrúa orkufyrirtækjanna rússnesku og úkraínsku í gær. Fréttablaðið/AP
Rússland og Úkraína eru í gær sögð hafa náð markverðum árangri í viðræðum um lækkun á afhendingarverði gass og um skuldir ríkisstjórnar Úkraínu við Rússland vegna fyrri gasviðskipta.

Tilgangur viðræðnanna er að koma í veg fyrir að snurða hlaupi á þráðinn við afhendingu gass, sem einnig gæti haft áhrif á Vestur-Evrópu, að því er haft er eftir embættismanni hjá Evrópusambandinu.

Framkvæmdastjórar ríkisorkufyrirtækja landanna tveggja komu sér saman um tillögu sem hefði í för með sér lækkun á verði gass til Úkraínu um leið og fallist yrði á endurgreiðsluáætlun vegna skuldar landsins við Rússland, segir orkumálastjóri Evrópusambandsins, Günther Oettinger, sem hafði umsjón með viðræðunum í Brussel.

Rússneska orkufyrirtækið Gazprom og Naftogaz í Úkraínu bera nú samkomulagsdrögin undir sérfræðinga sína og leita samþykkis hluthafa, sem eru ríkisstjórnir hvors lands um sig. Að því loknu segir Oettinger að seinni lota samningaviðræðnanna geti hafist.

Hann vildi þó ekki greina frá því hvað nýtt gasverð til Úkraínu yrði, en sagði að það yrði undir 485 Bandaríkjadölunum sem Úkraína greiðir nú fyrir hverja 1.000 rúmmetra af gasi, en yfir afsláttarverði upp á 268 dali sem Rússar hafi eitt sinn boðið. Til að tryggja afhendingu ætti að halda nýju verði stöðugu í eitt ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×