Fastir pennar

Út fyrir ramma

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Í helgarblaði Fréttablaðsins er spjall við hóp ungs listafólks sem sett hefur á stofn vinnustofu uppi á Höfða í þeim tilgangi að skapa fjölbreyttan starfsvettvang fyrir listamenn. Þetta unga fólk, sem flest er nýútskrifað úr listnámi, er ekkert á þeim buxunum að samfélagið eigi að skapa því verkefni og aðstöðu, heldur lætur verkin tala og hrindir hugmyndum sínum í framkvæmd sjálft. Mörk milli hefðbundinna listgreina eru máð út og fólk úr ýmsum áttum vinnur saman að því að skapa eitthvað nýtt og ferskt án þess að láta þröngva sér í fyrirframgefna farvegi. Og hendir þeirri hugmynd að listsköpun sé bundin við 101 Reykjavík út í hafsauga. Eins og gerst hefur í öðrum borgum Evrópu undanfarna áratugi sækja þau þangað sem húsnæði er ódýrt og gera hallærisleg iðnaðarhverfi að stöðunum þar sem gerjunin og blómgunin fer fram. Ef miðborgin er undirlögð af túristabúllum og hótelum er fundið nýtt hverfi þar sem svigrúm er til að skapa.

Hópurinn á Höfðanum er ekkert einsdæmi, úti um allt spretta upp sambærilegir hópar ungs listafólks sem vinnur saman þvert á skilgreiningar listgreina. Tjarnarbíó er orðið sprúðlandi vettvangur fyrir sköpun og samstarf og nú stendur yfir tónlistarhátíðin Reykjavík Midsummer Music sem er alfarið framtak Víkings Heiðars Ólafssonar píanóleikara sem, eins og hinum listamönnunum, fannst skorta vettvang fyrir það sem hann langaði að gera og bjó hann þá bara til sjálfur. Lungaskólinn á Seyðisfirði er enn eitt dæmið um þetta viðhorf unga fólksins og nær daglega heyrum við af nýjum verkefnum og hugmyndum sem drifnar eru áfram af fólki á milli tvítugs og þrítugs. Kynslóðinni sem legið hefur undir ámæli fyrir að vera veruleikafirrtir tölvuleikjanördar sem liggi uppi á pabba og mömmu og taki ekki virkan þátt í samfélaginu. Fátt gæti verið nær sanni.

Á meðan þetta unga fólk er önnum kafið við að skapa sér vettvang á eigin forsendum og sinna hugðarefnum sínum bölsótast eldri kynslóðir út í allt sem nöfnum tjáir að nefna en þó aðallega alla þá sem ekki eru sammála þeim í einu og öllu. Hin goðsagnakennda '68 kynslóð sem hingað til hefur verið litið á sem tákn uppreisnar gegn ríkjandi hugmyndum og ráðandi öflum er að sanna sig sem tuðandi íhaldskynslóð sem engu vill breyta. Hún dómínerar alla umræðu um list og menningu, og raunar nánast öll svið samfélagsins, með hroka besserwissersins sem alltaf hefur rétt fyrir sér og er smátt og smátt að verða dragbítur á nýsköpun og ferskar nálganir. Ansi dapurleg örlög goðsagnarinnar.

Það er gömul saga og ný að eldri kynslóðir líti þær sem á eftir koma hornauga og þyki lítið til þeirra koma en einhvern veginn hélt maður samt að uppreisnarseggirnir frá 1968 myndu ekki detta í þá gryfju í ellinni. Svo lengi lærir sem lifir. Eitt má þó '68 kynslóðin og sporgöngufólk hennar eiga; henni hefur tekist að ala upp nýja kynslóð sem virðist fær um að hrista af sér klafa kreddna og þröngsýni og fyrir það má vissulega hrósa henni.






×