Skoðun

Samstarf til vinstri

Katrín Jakobsdóttir skrifar
Vinstrihreyfingin – grænt framboð getur að mörgu leyti vel við unað eftir sveitarstjórnarkosningar þar sem hreyfingin stóð vörð um árangur sinn frá 2010 og bauð fram víða um land, bæði undir eigin nafni en einnig með formlegri og óformlegri þátttöku í sameiginlegum framboðum. Hins vegar tel ég ríka ástæðu á næstu misserum til að velta fyrir sér inntaki stefnu okkar. Hana tel ég eiga brýnna erindi en nokkru sinni fyrr á nýrri öld þar sem ójöfnuður og loftslagsbreytingar verða líklega stærstu viðfangsefnin og svörin geta ekki verið önnur en réttlæti og sjálfbærni.

Miklu skiptir líka hvernig fólk sem telur sig til félagshyggjufólks velur að vinna í stjórnmálunum og því er ástæða til að óska Reykvíkingum til hamingju með nýjan borgarstjórnarmeirihluta. Þar sameinast frjálslynt og félagshyggjusinnað fólk með breiða skírskotun og sterkt umboð kjósenda. Hver flokkur hefur að sjálfsögðu sína sérstöðu en um margt erum við sammála. Þar má nefna húsnæðismálin og áform nýs meirihluta um að byggja upp leiguhúsnæði. Þá skiptir miklu máli að nýr meirihluti tekur skýra afstöðu með fjölmenningu og gegn útlendingaandúð sem virðist því miður vera að skjóta rótum hér á landi.

Í átt að gjaldfrelsi

Það er líka ánægjulegt að sjá að nýr meirihluti í Reykjavík mun stíga fyrstu skrefin í átt að gjaldfrjálsum leikskóla með lækkun leikskólagjalda. Það er mál sem við Vinstri græn settum á dagskrá í kosningabaráttunni – og ágætt dæmi um þá sókn sem við viljum hefja í velferðar- og menntamálum á næstu árum. Nýr meirihluti hefur líka áform um aukið íbúalýðræði sem eru spennandi en vonandi verða líka tekin stór skref til að virkja fólk til þátttöku í þeim lýðræðislegu ferlum sem eru nú þegar til staðar.

Þar sem við Vinstri–græn tökum þátt í meirihlutasamstarfi skiptir miklu að við leggjum inn sjónarmið réttlætis og sjálfbærni og það munum við gera í öllu okkar starfi í sveitarstjórnum, óháð því hverjum við vinnum með í meirihluta og raunar óháð meirihluta og minnihluta. Sérstök ástæða er til að fagna þegar félagshyggjuöfl ná saman um slík málefni því það gefur tilefni til bjartsýni varðandi frekari samvinnu vinstrimanna á öðrum vettvangi.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×