Sport

Ætlum okkur upp um deild

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Fer til Georgíu. Aníta Hinriksdóttir keppir í bæði 800 og 1.500 m hlaupi kvenna.
Fer til Georgíu. Aníta Hinriksdóttir keppir í bæði 800 og 1.500 m hlaupi kvenna. fréttablaðið/valli
Ísland verður á meðal þátttökuþjóða í þriðju deild Evrópukeppni landsliða en alls eru 30 keppendur í íslenska liðinu. Mótið fer fram í Tbilisi í Georgíu um helgina og hélt hópurinn utan í gær.

„Þetta er eitt sterkasta lið sem við höfum átt og hefur farið á þetta mót í mörg ár. Allt okkar besta fólk er með, með einni undantekningu,“ sagði Þórey Edda Elísdóttir, fyrrverandi stangarstökkvari og verkefnastjóri FRÍ, en á dögunum varð ljóst að Sveinbjörg Zophoníasdóttir kæmist ekki með en áætlað var að hún keppti í hástökki. Ásgerður Jana Ágústsdóttir, UFA, tekur sæti hennar í liðinu.

„Við urðum í fjórða sæti í fyrra en höfum sett okkur það markmið að komast upp um deild nú. Það verður erfitt en ég er engu að síður bjartsýn. Við viljum komast upp og ég tel að við getum það,“ sagði Þórey Edda.

Alls eru fimmtán landslið skráð til þátttöku í Evrópukeppninni í Georgíu. Meðal íslenskra keppenda má nefna Ásdísi Hjálmsdóttur, Anítu Hinriksdóttur, Hafdísi Sigurðardóttur, Kára Stein Karlsson og Einar Daða Lárusson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×