Íslenski boltinn

Dalvík/Reynir vildi ekki veita frekari upplýsingar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þórir Hákonarson
Þórir Hákonarson
Stefán Garðar Níelsson, formaður knattspyrnudeildar Dalvíkur/Reynis, telur það ekki skaða ímynd félagsins að leikmaður liðsins hafi veðjað gegn liðinu fyrr í vetur eins og hann staðfesti í samtali við Fréttablaðið þann 4. júní síðastliðinn.

Stefán Garðar sagði það skýrt að viðkomandi leikmaður hafi ekki tekið þátt í leiknum, né heldur verið í leikmannahópi liðsins á yfirstandandi tímabili.

„Þeir sem eitthvað vit hafa á fótbolta gera sér grein fyrir því hvernig þetta er. Stór hluti af knattspyrnumönnum á ákveðnum aldri eru endalaust að finna leiki til að veðja á líkt og þetta dæmi sýnir,“ segir Stefán Garðar en eftir umræddan leik vaknaði grunur um að mikið hefði verið veðjað á að Þór myndi vinna Dalvík/Reyni í Kjarnafæðismótinu þann 13. janúar með minnst þremur mörkum.

Rannsókn leiddi í ljós að svo mikið var lagt undir að viðkomandi veðmálasíða þurfti að lækka stuðul sinn á veðmálinu.

Eftir áðurnefnt viðtal leitaði KSÍ eftir frekari upplýsingum hjá Dalvík/Reyni en Þórir Hákonarson, framkvæmdastjóri sambandsins, segir að forráðamenn félagsins hafi ekki viljað veita frekari upplýsingar en þær sem komu fram í viðtalinu.

„Þetta mál kennir okkur að við þurfum að herða á okkar reglum og hugsanlega á þann máta að hægt sé að refsa einstaklingum eða félögum fyrir að veita ekki nægilegar upplýsingar,“ sagði Þórir.


Tengdar fréttir

Íslenskur leikmaður veðjaði á úrslit eigin liðs

Stefán Garðar Níelsson, formaður knattspyrnudeildar Dalvíkur/Reynis, staðfesti í samtali við Fréttablaðið í gær að leikmaður félagsins hefur viðurkennt að hafa veðjað á úrslit eigin liðs í janúar síðastliðnum.

Veðmálasíða neyddist til þess að lækka stuðulinn

Töluvert hærri upphæðir voru lagðar undir á leik Þórs og Dalvíkur/Reynis í Kjarnafæðismótinu þann 13. janúar síðastliðinn en eðlilegt getur talist. Þetta staðfesti Pétur Hrafn Sigurðsson, deildarstjóri hjá Íslenskum getraunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×