Lífið

Heldur útgáfutónleika í fótboltafríinu

Kristjana Arnarsdóttir skrifar
Ásgeir Börkur ætlar að nýta örstutt sumarfríið hér á landi í plötuútgáfu.
Ásgeir Börkur ætlar að nýta örstutt sumarfríið hér á landi í plötuútgáfu. Fréttablaðið/Stefán
„Plötuna tókum við upp á Egilsstöðum fyrir áramót en við áttum sönginn eftir. Svo fer ég óvænt út í janúar, ekkert búinn að syngja, en sem betur fer lifum við á 21. öldinni svo ég komst í samband við stúdíó hér úti og kláraði mitt,“ segir knattspyrnumaðurinn og söngvarinn Ásgeir Börkur Ásgeirsson en hljómsveit hans, Mercy Buckets, heldur útgáfutónleika á Gauknum hinn 4. júlí. 

Ásgeir gerði samning við sænska B-deildarliðið GAIS í janúar en hann var áður á mála hjá Fylki í Árbænum. „Það kom vissulega smá babb í bátinn við þessa flutninga en við vorum búnir að vera duglegir. Þegar ég kláraði sönginn fór þetta allt að rúlla hjá okkur,“ segir Ásgeir, sem kemur hingað til lands á sunnudaginn en þá hefst stutt leikjahlé í sænsku deildinni. Þar af leiðandi hafi það verið kjörið að smella í eina útgáfutónleika í sumarfríinu.

Ásgeir segir sveitina spila svokallað partírokk. „Við höfum allir verið viðloðandi þungarokkið en höfum mikinn áhuga á hefðbundnu rokki og róli líka. Þetta er því rokk og ról með þungarokksáhrifum, sem við köllum partírokk.

Tímabilinu í sænsku deildinni lýkur í nóvember og fær Ásgeir þá gott sex vikna frí á Íslandi. Verður þá farið í tónleikaferðalag? „Það er mjög góð spurning. Af hverju ekki?“ segir hinn eldhressi Ásgeir Börkur að lokum. 

Ásgeir í miðri sveiflu á tónleikum Mercy Buckets.Mynd/ Yevgeny Dyer
.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.