Skoðun

Eru lífshótanir í lagi?

Ingibjörg Tamimi Sigurjónsdóttir skrifar
Þú venjulegi íslenski maður/kona, þú átt kannski mömmu og pabba, afa og ömmu, systkini, konu og börn. Finndist þér í lagi að hóta þeim vegna ólíkrar skoðana ? Finndist þér réttlátt að segja þér og þinni fjölskyldu að flytja úr landinu þínu, bara vegna trúar þinnar?

Segðu mér eitt, af hverju er í lagi að segja við manneskju frá erlendum uppruna að fara heim til sín? Af hverju er í lagi að segja manneskju sem aðhyllist annarri trú en þú að hún eigi engan rétt á að iðka sína trú? Af hverju er í lagi að segja að fólk af erlendum uppruna eiga að flytja með fjölskyldu sína burt, því þeir eru ekki íslendingar? Af hverju er í lagi að segja við fólk að Ísland sé einungis fyrir íslendinga?

Þú sem sendir manni mínum lífshótanir og þú sem sendir honum ljót sms skilaboð um að múslimar eiga að drulla sér úr landi, hvaða rétt hefur þú til að valda manni mínum og okkur fjölskyldunni hræðslu og kvíða?. Hvernig heldur þú að fjölskyldu þinni liði ef þau fengu svona hótanir? Hugsaðu málið.

Hvernig heldurðu að börnin þín myndu líða ef þau myndu lesa svona sora um foreldri sitt?

Ég og maðurinn minn erum búin að vera saman og gift í 28 ár. Við eigum 5 börn saman og 9 barnabörn hér á Íslandi. Hvaða rétt hefur þú að segja við okkur að flytja í burtu því að Ísland er bara fyrir íslendinga? Hvert eiga börnin mín að fara þegar þú segir múslimum að fara burt af Íslandi? Við erum íslendingar. Við erum hvorki minni né meiri íslendingar en aðrir sem búa á Íslandi. Við erum íslendingar þó að trúarbrögð okkar eru ólík öðrum. Við erum múslimar og við erum stolt af því. Hér ríki hvorki kúgun né annað á okkar heimili. Það hvílir jafnrétti fyrir alla á okkar heimili. Börnin okkar eiga heima hér á Íslandi. Ísland er þeirra land. Ísland er okkar land líka.




Skoðun

Sjá meira


×