Lífið

Fann sinn sanna tón í reggítónlistinni

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Vísir/Valli
„Ég vissi í raun aldrei hvað ég vildi syngja en held ég hafi fundið minn tón í reggíinu. Mér finnst ógeðslega gaman að syngja reggítónlist,“ segir tónlistarkonan Salka Sól Eyfeld, sem er um þessar mundir í tveimur vinsælum hljómsveitum hér á landi. Hún er söngkona í reggísveitinni Amaba Dama og þá er hún einnig í rappstúlknasveitinni Reykjavíkurdætur. „Það gengur vel að samræma þetta, maður finnur alltaf tíma fyrir listina eða það sem maður elskar að gera.“

Amaba Dama hefur átt í nógu að snúast að undanförnu. „Við erum að vinna á fullu í plötu sem kemur út fyrir jól.“ Hin hljómsveitin, Reykjavíkurdætur, hefur einnig talsvert verið í deiglunni að undanförnu, en er ekki erfitt að vera í hljómsveit með fimmtán stelpum? „Nei, þetta er einn skemmtilegasti hópur sem ég hef verið í. Við erum allar ólíkar en tengjumst samt svo vel, það verður til svo mikil orka þegar við hittumst,“ segir Salka Sól um Reykjavíkurdætur.

Hún byrjaði þó að rappa fyrir hálfgerða slysni. „Ég hafði aldrei ímyndað mér að ég myndi byrja að rappa, því ég hafði bara verið að syngja,“ útskýrir Salka Sól, sem er einnig mikill hipphoppunnandi.

Hún kom heim til Íslands fyrir um ári, eftir að hafa lagt stund á nám við hljóðmyndagerð í London. „Eftir að ég kom heim vildi ég fara að gera mína eigin tónlist. Það gengur vel, svo vinnum við í Amaba Dama tónlistina saman, þó að Maggi komi með flestar hugmyndirnar. Það er frábært að vinna með mögnuðu fólki,“ bætir Salka Sól við.

Hún kemur úr mikilli leikarafjölskyldu, en er leiklistin ekki á stefnuskránni? „Leikarabakterían er ekkert svo mikil. Ég hef meiri áhuga á að skapa tónlist fyrir leikhús, sérstaklega eftir námið í London.“

Í sumar mun Salka Sól vera umsjónarmanneskja þáttarins Sumar morgnar á Rás 2, ásamt Dodda litla, en þættirnir koma í staðinn fyrir Virka morgna í sumar. „Mig langaði alltaf að verða útvarpskona þegar ég var yngri þannig að þetta verður geðveikt gaman. Þegar ég var yngri var ég gjörn á að taka upp útvarpsþætti á kassettu,“ segir Salka Sól létt í lundu, en þá var hún einnig valin bæjarlistamaður Kópavogsbæjar fyrir skömmu.

Fram undan hjá Sölku Sól er vinna í plötu Amaba Dama og þá er þétt tónleikadagskrá fram undan hjá hljómsveitum hennar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.