Lífið

Gat ekki orðið rokkstjarna og gerðist myndhöggvari

Baldvin Þormóðsson skrifar
Jón Adolf vill ekki hengja sig á einhvern einn sérstakan stíl.
Jón Adolf vill ekki hengja sig á einhvern einn sérstakan stíl. Mynd/úr einkasafni
„Ég gat aldrei orðið rokkstjarna þannig að ég ákvað að gerast góður myndhöggvari í staðinn,“ segir listamaðurinn Jón Adolf Steinólfsson hlæjandi en hann opnar sýningu í Perlunni á morgun ásamt Karin Esther og Finnboga Kristinssyni en þau reka galleríið 16C í Kópavoginum.

„Þetta er mjög litrík sýning og það er ekki neinn einn sérstakur stíll yfir þessu,“ segir Jón Adolf. „Ég hef aldrei viljað hengja mig á einhvern einn stíl.“ Jón Adolf hefur skorið út allt frá gíturum til aska.

„Mér finnst gaman að taka gamlar hefðir og færa þær yfir til nútímans“, segir listamaðurinn sem hefur meðal annars skorið út tölvuskjái. „Mér fannst gamla handbragðið alltaf svo skemmtilegt en það átti ekki mikið við mig, ég er svo mikill uppreisnarseggur.“

Þetta er annað árið sem listamannahópurinn sýnir í Perlunni en Karin Esther sérhæfir sig í glerskúlptúrum þar sem hún nýtir mikið íslenska náttúru á borð við hraun og blandar því inn í sín verk á meðan Finnbogi málar mest abstraktmyndir. Eins og áður hefur komið fram verður sýningin opnuð á morgun í Perlunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.