Lífið

1700 tonn af fötum safnast árlega

Sólveig Gísladóttir skrifar
Fjöldi ferðamanna sækir Rauðakrossbúðina á Laugavegi 12
Fjöldi ferðamanna sækir Rauðakrossbúðina á Laugavegi 12 Mynd/Arnþór
Helga Árnadóttir starfar sem sjálfboðaliði í Rauðakrossbúðinni.Mynd/Arnþór
Hér er mjög mikið að gera. Ætli hingað komi ekki í kringum hundrað til hundrað og fimmtíu manns yfir daginn og mikill meirihluti þeirra ferðamenn,“ segir Helga Árnadóttir sem vinnur sem sjálfboðaliði í Rauðakrossbúðinni á Laugavegi 12.

Það helsta sem útlendingarnir sækjast eftir í versluninni eru lopapeysur að sögn Helgu. „Þá gleypa þeir líka við merkjavörufatnaði, en hingað fáum við vörur frá Boss, Tommy Hilfiger og Karen Millen. Hér hafa fengist flottar kasmírullarkápur og fínir skór, jafnvel ónotaðir,“ lýsir Helga en seljanlegustu vörurnar sem berast Rauða krossinum eru iðulega settar á sölu í búðinni á Laugavegi 12.

Helga segir ferðamenn afar ánægða með að gera góð kaup í lopapeysum hjá henni. „Verðið á þeim fer eftir ástandi. Sumar eru sem nýjar og aðrar beinlínis ónotaðar. Peysurnar kosta þannig á bilinu tíu til fimmtán þúsund krónur,“ segir hún en til samanburðar kosta nýjar lopapeysur í ferðamannabúðum í kringum 30 þúsund krónur.

Helga segir Íslendinga þó einnig sækja verslunina. „Ungu stelpurnar koma reglulega og skanna búðina eftir „vintage“-kjólum og gera oft mjög góð kaup. Svo erum við með marga fastakúnna sem koma aftur og aftur,“ segir Helga, sem hefur afar gaman af því að vinna í versluninni. „Sjálfboðaliðar vinna í fjóra tíma í senn og tíminn flýgur,“ segir hún og hvetur sem flesta til að gerast sjálfboðaliðar hjá Rauða krossinum. „Þetta er svo gaman og gefandi,“ segir Helga, sem er einn af hundrað sjálfboðaliðum sem standa vaktina í tólf Rauðakrossbúðum sem eru starfræktar um allt land.

Rauðakrossbúðin á Laugavegi 12 ersöluhæsta og vinsælasta verslunin en fötin sem þangað fara eru sérvalin úr frá sölugildi. Mynd/Arnþór
Safna 1.700 tonnum árlega

„Fólk er í auknum mæli að gefa Rauða krossinum fatnað og skó og þess háttar,“ segir Sandra Grétarsdóttir, rekstrarstjóri fatabúða Rauða krossins, en um 1.700 tonn af fatnaði bárust félaginu á síðasta ári. Þar af voru 1.612 tonn flutt í endurvinnslu erlendis, sem er 19 prósenta aukning frá fyrra ári. Þá fóru um 50 tonn í Rauðakrossbúðirnar og fataúthlutun, og um 20 tonn í hjálparstarf til Hvíta-Rússlands. 

Sandra bendir á að fólk megi gefa allan fatnað, hvort sem hann er slitinn eða nýr. „Slitinn fatnað seljum við áfram í endurvinnslu en hann fer ekki í verslanirnar,“ útskýrir hún.

Tekjur félagsins af sölu á notuðum fatnaði voru um 100 milljónir króna á síðasta ári. Fatasöfnunin er þannig helsta fjáröflunarverkefni Rauða krossins en um 600 sjálfboðaliðar um allt land koma að söfnun, flokkun, sölu og framleiðslu barnapakka. Deildir um allt land sjá um að safna fötum, flokka þau og senda í vöruhús fatasöfnunar í Skútuvogi. Þar eru fötin flokkuð enn frekar og ýmist seld út til endurvinnslu eða í Rauðakrossbúðirnar. 

„Búðirnar fá nýjar sendingar í hverri viku og sjálfboðaliðarnir í verslununum sjá um að taka upp „nýjan“ fatnað á hverjum degi,“ segir Sandra og bætir við að viðskiptavinir búðanna séu eins ólíkir og þeir eru margir. „Þetta er fólk á öllum aldri, frá nemum til bankastjóra,“ segir hún glaðlega.

Sandra er afar ánægð með aukinn hagnað af fatasölu Rauða krossins en langstærstur hluti hagnaðarins fer í alþjóðlegt hjálparstarf og rekstur Hjálparsíma Rauða krossins, 1717. „Það sem gerir okkur mögulegt að ná þessum árangri er mikil og góð vinna fjölda sjálfboðaliða. Þeir eiga heiðurinn af því að unnt er að nýta þessa fjármuni til hjálparstarfa.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.