Lífið

Fjörutíu folöld á ári

Falleg hryssa og folald úr ræktun Úrvalshesta með ægifagra Heklu í baksýn.
Falleg hryssa og folald úr ræktun Úrvalshesta með ægifagra Heklu í baksýn.
Hjónin Svanhildur Hall og Magnús Lárusson hjá Úrvalshestum bjóða öllum áhugasömum að heimsækja sig á hrossaræktarbúið Holtsmúla í Landsveit á sunnudag, mánudag og þriðjudag.

"Hér er mikil stemning og veðrið hefur alveg sloppið til í morgun þótt nú sé farið að hvessa,“ segir Svanhildur Hall þegar blaðamaður hefur uppi á henni í vari við veitingatjald á Landsmóti hestamanna. Svanhildur, líkt og aðrir einarðir hestamenn, er stödd á Hellu að fylgjast með því besta sem íslensk hestamennska hefur upp á að bjóða. Af því tilefni ætla Svanhildur og eiginmaður hennar, Magnús Lárusson, að halda opið hús á bæ sínum Holtsmúla á sunnudag, mánudag og þriðjudag frá klukkan 17 til 20.

„Dagskráin er eins alla dagana. Við byrjum á sýnikennslu á því hvernig við fortemjum og metum gæði í ótömdum hrossum. Við sýnum hvernig við metum gæði þeirra varðandi byggingu, hreyfingu og geðslag,“ lýsir Svanhildur en í kjölfarið verða öll unghross Úrvalshesta til sýnis, en svo kallast fyrirtæki þeirra hjóna. „Fólk getur gengið um og skoðað hrossin og ef þeim líst á eitthvað getum við tekið þau fram og sýnt þau betur,“ segir Svanhildur en yfir fjörutíu hryssur og stóðhestsefni á aldrinum 0 til 4 vetra verða til sýnis auk nokkurra taminna hrossa.

„Sýningin og opna húsið eru ókeypis og allir eru velkomnir,“ segir Svanhildur en þau hjónin munu bjóða gestum upp á heimabakaðar rammíslenskar kleinur og flatkökur.



Holtsmúlafjölskyldan. Svanhildur og Magnús ásamt dætrum munu taka vel á móti gestum.
Lærðu hestafræði í Bandaríkjunum

Þau Svanhildur og Magnús eru bæði þrautlærð í flestu sem tengist hestum. Þau eru bæði með mastersgráðu í hestafræðum frá Bandaríkjunum og eru auk þess reynslumikil þegar kemur að tamningu, ræktun, þjálfun og kennslu, en allt þetta bjóða þau upp á undir merkjum Úrvalshesta.

Þau keyptu hina fornfrægu jörð Holtsmúla I fyrir sex árum og líkar vel vistin þar. „Við erum í aðeins fimmtán mínútna fjarlægð frá Hellu. Hér er gott land og frábær aðstaða,“ segir Svanhildur en nýverið var tekin í notkun ný 750 fm reiðhöll á bænum. „Það er alger bylting fyrir okkur að fá þessa höll og nýtist hún okkur bæði í kennslu og þjálfun hrossa.“ Svanhildur og Magnús kenna reiðmennsku og hrossarækt hér heima en leggja einnig reglulega land undir fót og kenna reiðmennsku víða í Evrópu en ekki síður í Bandaríkjunum.



Fá fjörutíu folöld á ári


Hrossaræktin skipar stóran sess í starfsemi Úrvalshesta. „Við fáum um fjörutíu folöld á hverju ári og erum því með stærri búum á landinu þar sem ræktuð eru líffolöld,“ segir Svanhildur en þau Magnús leggja mikið upp úr að velja bestu stóðhestana fyrir hverja og eina hryssu. „Síðan þarf að temja öll þessi hross sem er heldur betur mikil vinna,“ segir hún glaðlega en tekur þó fram að þau selji einnig mikið af folöldum, trippum og upp í fulltamin hross. „Við seljum mest okkar eigin hross núorðið, enda eigum við svo mörg.“

Flest hrossin eru seld til útlanda eins og staðan er í dag og segir Svanhildur miklu skipta að vera með öfluga heimasíðu á borð við www.urvalshestar.is. Þar er einnig hægt að nálgast ítarlegri upplýsingar um starfsemi Úrvalshesta auk sölulista fyrir þá sem stefna á opið hús í Holtsmúla.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.