Bíó og sjónvarp

Melissa McCarthy sóar hæfileikum sínum

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Susan Sarandon leikur ömmu Tammy í myndinni.
Susan Sarandon leikur ömmu Tammy í myndinni.
Grínmyndin Tammy var frumsýnd á Íslandi í gær en hún fjallar um Tammy sem missir vinnuna og kemst að því að eiginmaður hennar hefur haldið framhjá henni. Hún ákveður að gera eitthvað nýtt og býður ömmu sinni, Pearl, í bíltúr en amman er illa haldin af alkóhólisma. Þegar Tammy ákveður síðan að ræna skyndibitastað eru góð ráð dýr og stöllurnar lenda í ýmsum ævintýrum.

Leikkonan Melissa McCarthy leikur Tammy en hún náði að slá í gegn í Hollywood í kvikmyndinni Bridesmaids frá árinu 2011. Hún stal senunni og kvikmyndir eins og The Identity Thief og The Heat fylgdu í kjölfarið og er Melissa ókrýnd gríndrottning Hollywood.

Tammy er hins vegar persónulegasta verkefni hennar til þessa þar sem hún skrifaði handritið ásamt eiginmanni sínum, leikaranum Ben Falcone. Ben leikstýrir myndinni en þetta er frumraun hans í leikstjórn. Í viðtali við Fast Company segir Ben að hann vilji sýna nýja hlið á Melissu.

„Ég vil auðvitað að myndin gangi vel af milljónum ástæðna. En þetta er frábært tækifæri fyrir Melissu að leika allt þetta og sýna aðra hlið á sjálfri sér,“ segir hann. Þau hjónin vilja semja grín um venjulegt fólk í skringilegum aðstæðum.

„Melissa og ég segjum bæði að við skrifum ekki góðar skrýtlur. En grín snýst um að setja einhvern í aðstæður þar sem hann þarf að berjast fyrir því að ná árangri og horfa á hann annað hvort standa sig vel eða, eins og líklegra er í grínmynd, standa sig illa.“





Myndin hefur hins vegar ekki hlotið lof gagnrýnenda og segir Amy Nelson hjá Guardian Liberty Voice að Melissa hafi sóað hæfileikum sínum við leik í myndinni.

„Melissa McCarthy er ótrúlega hæfileikarík leikkona og grínisti og hefur sýnt hvað hún getur fyrir framan myndavélina í mörgum myndum upp á síðkastið. Því miður hefur Melissa McCarthy sóað hæfileikum sínum í nýju myndinni Tammy og bæði áhorfendur og gagnrýnendur eru sammála um að kvikmyndin sé flopp,“ skrifar hún.

Auk Melissu eru það Susan Sarandon, Dan Aykroyd, Kathy Bates og Toni Collette sem fara með hlutverk í myndinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.