Innlent

Alvarlegar athugasemdir við skýrslu um fiskeldi

Svavar Hávarðsson skrifar
Óðinn Sigþórsson.
Óðinn Sigþórsson.
Landssamband veiðifélaga (LV) gerir alvarlegar athugasemdir við skýrslu nefndar um leyfisveitingar og eftirlit í fiskeldi. Sérstaklega hvað varðar merkingar á eldislaxi.

Óðinn Sigþórsson, formaður LV, segir það vekja sérstaka athygli að skýrsluhöfundar virðast ekki hafa kynnt sér þær breytingar sem Alþingi gerði á frumvarpi atvinnuvegaráðherra til breytinga á lögum um fiskeldi.

„Til dæmis var lögunum breytt í þá veru að skylt er að merkja eldislax með utanáliggjandi merki. Í skýrslunni er því hafnað og uggaklipping eldislax talin tímafrek og dýr aðgerð sem þjóni takmörkuðum tilgangi. Þessu erum við veiðiréttareigendur algjörlega ósammála,“ segir Óðinn og bætir við að ef eldislax veiðist í laxveiðiám er nauðsynlegt að hann sé auðkenndur þannig að honum verði ekki sleppt aftur í ána.

Nefndin leggur til að burðarþolsmat verði gert í öllum helstu fjörðum á Vestfjörðum og Austfjörðum ásamt Eyjafirði. Eins að gert verði straumlíkan til að meta nauðsynlega fjarlægð á milli sjókvíaeldissvæða. Þá eru gerðar tillögur um eftirlit með slysasleppingum og hvernig efla megi eftirlit með fiskeldisstöðvum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×