Erlent

Flugvélin var skotin niður yfir átakasvæðinu

ingvar haraldsson skrifar
Talið er að allir 295 farþegar vélarinnar séu látnir.
Talið er að allir 295 farþegar vélarinnar séu látnir. fréttablaðið/ap
Flugvél malasíska flugfélagsins Malaysian Airlines hrapaði með 295 manns um borð í Austur-Úkraínu skammt frá rússnesku landamærunum á fjórða tímanum í gær. Meirihluti farþeganna voru Hollendingar. Talið er að allir farþegar vélarinnar séu látnir.

Bandaríska leyniþjónustan segir vélina hafa verið skotna niður með flugskeyti. Hún hrapaði á svæði sem uppreisnarmenn hliðhollir Rússum ráða en ekki liggur fyrir hvaðan eldflaugin kom. Stjórnvöld í Úkraínu, Rússar og uppreisnarmenn hafa allir neitað sök. Lík og brak úr vélinni hafa fundist á margra ferkílómetra svæði.

Að sögn The Washington Post lýsti einn af leiðtogum uppreisnarmanna því yfir á netsíðu að þeir hefðu skotið niður úkraínska flutningaflugvél skömmu eftir að malasíska flugvélin hvarf af ratsjá. Færslunni var svo eytt eftir að fregnir bárust að farþegaflugvél hefði farist.

Úkraínska innanríkisráðuneytið fullyrðir að flugvélin hafi verið í tíu kílómetra hæð þegar Buk-flugskeyti sem framleitt er af Rússum hæfði vélina. Fréttamenn hafa séð slík skeyti í höndum uppreisnarmanna, en herir Rússlands og Úkraínu nota þau einnig.

Uppreisnarmenn lýstu fyrr í vikunni yfir ábyrgð á að hafa skotið niður tvær úkraínskar herþotur.

Flugvélin, sem var af gerðinni Boeing 777 tók á loft frá Schiphol-flugvelli, í Amsterdam um klukkan tíu að íslenskum tíma og var á leið til Kúala Lúmpúr í Malasíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×