Íslenski boltinn

Með 90 prósenta sigurhlutfall í bikarnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
KR hefur átt góðu gengi að fagna í bikarnum undanfarin ár.
KR hefur átt góðu gengi að fagna í bikarnum undanfarin ár. Fréttablaðið/daníel
KR-ingar tryggðu sér sæti í bikarúrslitaleiknum á fimmtudagskvöldið með 5–2 sigri á ÍBV í Eyjum og héldu því áfram magnaðri framgöngu sinni í bikarkeppninni.

Fram undan er fimmti bikarúrslitaleikur KR-liðsins á sjö árum og sá fjórði síðan Rúnar Kristinsson tók við liðinu á miðju sumri 2010.

KR-ingar hafa nú unnið 29 af 32 bikarleikjum sínum síðustu sjö sumur eða yfir 90 prósent leikja sinna í bikarkeppninni á undanförnum árum.

Gott bikargengi KR-inga kristallast kannski best í samanburði við aðalkeppinauta þeirra í FH sem hafa unnið 19 færri bikarleiki en Vesturbæjarliðið frá og með árinu 2008.

Rúnar Kristinsson tók við KR-liðinu um mitt sumar 2010 og stjórnaði því í 20. bikarleiknum í fyrradag. KR hefur unnið 18 af þessum 20 leikjum og markatalan er 50–17.

Það er samt ekki eins og KR-liðið hafi verið svona heppið í bikardrættinum því sautján af þessum leikjum eru gegn félögum úr efstu deild og liðið hefur verið á útivelli í sjö síðustu leikjum sínum í átta liða úrslitum og undanúrslitunum.

Rúnar mætir með KR-liðið í fjórða sinn á fimm árum í bikarúrslitaleikinn á móti Keflavík 16. ágúst næstkomandi en eftir skell í fyrsta bikarúrslitaleiknum (0–4 á móti FH 2010) hafa menn Rúnars fagnað sigri tvisvar (2011 á móti Þór og 2012 á móti Stjörnunni).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×